Vel gekk að útvega fólki húsnæði eftir snjóflóðin
Greiðlega hefur gengið að útvega húsnæði fyrir það fólk sem ekki hefur getað snúið heim til sín eftir snjóflóðin í Neskaupstað í lok mars. Um er að ræða fólk úr fjölbýlishúsunum við Starmýri. Ein fjölskylda er flutt aftur inn.Að sögn Laufeyjar Þórðardóttur, sviðsstjóra fjölskyldusviðs Fjarðabyggðar, leituðu átta fjölskyldur úr húsunum tveimur til sveitarfélagsins eftir aðstoð við að finna sér samastað eftir hamfarirnar.
Fyrsta skrefið hafi verið að koma þeim í bráðabirgðahúsnæði en síðan hafi verið leitað í varanlegri úrræði. Af þessum fjölskyldum eru sex í húsnæði á vegum Fjarðabyggðar. Það fékkst mest í gegnum húsnæðisfélagið Brák, sem er í eigu sveitarfélaganna í landinu, en nýlokið er við byggingar á vegum þess í Neskaupstað.
Ein fjölskylda er flutt aftur heim, í innri Starmýrarblokkina, en hún skemmdist minna í snjóflóðinu að morgni mánudagsins 27. mars.
Laufey segir húseigendur í Neskaupstað hafa verið duglega að rétta fram hjálparhönd í kringum snjóflóðin. „Um tíma stóð okkur til boða meira húsnæði en við þurftum á að halda, sem var dásamlegt.“
Allar fjölskyldurnar sem leituðu til Fjarðabyggðar eru í húsnæði í Neskaupstað. Laufey segir það skipta máli því mikilvæg sé einkum fyrir börn að halda rútínu, svo sem mæta til skóla, eftir áföll eins og þessi. Fjölskyldusvið Fjarðabyggðar hefur verið í reglulegu sambandi við það fólk sem varð fyrir mestum skakkaföllum í snjóflóðunum til aðstoðar.
Þannig fóru sálfræðingar frá bæði Heilbrigðisstofnun Austurlands og fjölskyldusviði í skólana í Neskaupstað strax eftir páska til að veita kennurum og nemendum ráðgjöf og stuðning.