Verða ekki við beiðni um aukaframlag til bókasafna Fjarðabyggðar að sinni
Bæjarstjórn Fjarðabyggðar hefur hafnað óskum forstöðumanna bókasafna sveitarfélagsins um aukið fjárframlag til að hægt sé að endurnýja bókakostinn.
Guðrún Rúnarsdóttir, forstöðumaður bókasafns Reyðfirðinga, skrifaði bæjarstjórn Fjarðabyggðar bréf fyrir skömmu fyrir hönd allra forstöðumanna bókasafna í sveitarfélaginu. Þar óskaði forstöðufólkið eftir auknu fjárframlagi til að efla bókakost safnanna. Sérstaklega þar tiltekið að aukið fjármagn yrði nýtt til kaupa á bókum á svokallaðri Barnabókamessu sem bókaútgefendur halda í nóvembermánuði ár hvert og þar sem söfnum býðst að kaupa ritverk á heildsölukjörum.
Guðrún bendir á í bréfi sínu að verð bóka hafi hækkað langt umfram það fjármagn sem eyrnamerkt sé bókasöfnunum árlega. Til að hægt sé að efla safnkostinn og jafna aðgengi barna í sveitarfélaginu að nýjum bókum á íslensku sé brýn nauðsyn á aukafjárveitingu.
Í svari fjölskyldunefndar Fjarðabyggðar sem tók erindið fyrir er bent á að bæjarráð hafi aukið við fjárheimildir bókasafnanna á síðasta ári og að svo stöddu sé ekki hægt að verða við beiðni um enn hærri fjárupphæð að sinni.
Bókasafn Fáskrúðsfirðinga er staðsett í skólahúsi bæjarins eins og önnur bókasöfn sveitarfélagsins. Myndin tengist greininni ekki beint. Mynd Grunnskóli Fáskrúðsfjarðar