Orkumálinn 2024

Verður að huga að öðrum kostum vegna eldgosahættu á Reykjanesi

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, telur að íslensk stjórnvöld verði að huga alvarlega að því að byggja upp innviði víðar á landinu ef til þess kemur að eldgos á Reykjanesskaga lokar leiðum þangað um tíma. Varaflugvöllur er eitt af því sem þar þyrfti að vera í forgangi og rökréttast að efla völlinn á Egilsstöðum sem slíkan.

„Það bendir allt til þess að við séum á leið inn í eldgosatímabil á Reykjanesskaga. Út frá gossögu skagans vitum við að slík tímabil geta varað í um 2-400 ár og hvert um sig með 10-15 gos sem dreifast nokkuð jafnt í tíma. Í sumum tilfellum eru þetta eldar með syrpu af gosum á nokkurra ára fresti.

Á síðustu 3500 árum hafa verið þrjú svona tímabil og um 800 ár á milli tímabila. Síðasta gos á Reykjanessaga, áður en gaus í Fagradalsfjalli í fyrra, var árið 1240. Þar á milli eru 781 ár þannig þetta virðist ganga eins og klukka,“ segir Þorvaldur.

„Við þekkjum líka af sögunni að þarna geta orðið öskugos, eða jafnvel brennisteinsrík gos með móðu, sem truflað getur flugumferð dögum, jafnvel vikum saman.

Gosin geta komið upp á sprungu sem nær nánast þvert yfir skagann og það er þekkt að í sama gosi hefur hraun runnið út í sjó bæði á norðan- og sunnanverðu nesinu. Slíkur atburður myndi í dag loka bæði Keflavíkur- og Suðurstrandarvegi og þar með fyrir alla umferð út til Keflavíkurflugvallar,“ segir Þorvaldur.

Náttúrulega aðstæður Egilsstöðum í hag

Hann bendir á að í þessu felist margvísleg áhætta. Tekjur af ferðamönnum árið 2019 voru um 1,3 milljarðar á dag. Annars vegar kæmist ferðafólkið ekki til landsins, hins vegar gæti það fælt frá að hafa ekki örugga leið heim. Við bætast mikilvægi vöruflutninga með flugi og þjónusta sem Íslendingar sækja erlendis, svo sem heilbrigðisþjónustu. „Mér finnst augljóst að við þurfum annan starfhæfan alþjóðaflugvöll á svæði sem stendur ekki frammi fyrir sömu jarðfræðilegu hættum og Keflavíkurvöllur,“ segir Þorvaldur.

Hann bendir á að standi valið milli flugvallanna á Akureyri og Egilsstöðum. „Annmarkar Akureyrarsvæðisins er landrými og þess vegna erfitt að byggja flugvöll með fleiri en eina lendingarstefnu. Á Egilsstaðarsvæðinu er talsvert meira undirlendi sem myndi nýtast til að þróa völlinn eystra.“ Þorvaldur segir það ekki sitt að meta hvers konar flugvöll þurfi, til þess séu aðrir færari. Eins þurfi að tryggja aðra innviði, til dæmis gistiaðstöðu og flugstöðina sjálfa, í takt við flugbrautina. Fleiri náttúrulegar aðstæður eru Egilsstaðaflugvelli í hag.

„Egilsstaðasvæðið er á gömlu bergi frá nýöld og sem og Norðurgosbeltið við Öskju. Þaðan kemur fyrst og fremst gjóska í gosi og hún klárast á nokkrum dögum. Jafnframt er Askja 110 km frá Egilsstöðum, sem er mun meiri fjarlægð þegar borið saman við Keflavíkurflugvöll, sem er um 20 km frá eldstöðvunum á Reykjanesi. Snæfell er vissulega nær en það er lítil hætta á gosi þaðan,“ bendir Þorvaldur á.

Verður að hugsa tímanlega fyrir áhættunni

Hann segir að önnur eldfjallaríki hafi slíkar ráðstafanir og nefnir bæði Hawaii og Nýja-Sjáland, þar sem hann bjó áður. „Í Hawaii er hver eyja með alþjóðlegan völl. Þótt sá stærsti sé á Oahu-eyju (við Honolulu) þá eru tveir alþjóðlegir vellir á Hawaiieyju þar sem eldvirknin er. Nýja-Sjáland, þar sem norðureyjan er álíka stór og Ísland, eru að minnsta kosti tveir alþjóðlegir flugvellir.“

Að vera með varáætlanir tilbúnar á ekki bara við um flugvöllinn heldur fleiri mikilvæga innviði sem séu á Reykjanesi eða nærri svæðum þar sem náttúran getur gripið hraustlega í taumana. „Við þurfum að vera með tvennt af ansi mörgu og setja á það jarðfræðilega ólíka staði að þeir lendi ekki báðir í samskonar krísu vegna náttúruvár.“

Eldgos á Reykjanesi, Krýsuvík, Svartengi, Hengli eða Bláfjöllum gætu valdið miklum búsifjum fyrir Ísland. Þorvaldur telur þó að gos á þessum svæðum eigi ekki að vera lífshættuleg, það er að vera það fjærri byggð í byrjun og hafa slíkan aðdraganda, að hægt sé að koma fólki í öruggt skjól.

Þorvaldur, sem í sumar kemur að verkefni sem snýst um að hanna líkan að svokallaðri hraunbrú sem leitt gæti hraunstraum yfir vegi og lagnir, segir mikilvægt að Íslendingar hugsi tímanlega út í fylgifiska eldgosa á Reykjanesi til að geta brugðist við í tíma.

„Við megum ekki vera hrædd við að velta fyrir okkur lausnum og slá þær ekki út af borðinu fyrr en prófanir hafa sýnt þær virki alls ekki. Forrannsóknir kosta tiltölulega lítið miðað við hver fórnarkostnaðurinn getur orðið.

Að draga úr áhættunni fyrir íslenskt samfélag, þannig að atburðir eins og eldgos hafi sem minnst áhrif á okkar líf, er eitt mikilvægasta verkefnið sem við stöndum frammi fyrir sem þjóð. Þetta snýst ekki um fólkið á Reykjanesskaga eða Austfjörðum, það er tap fyrir Ísland sem heild ef flugvöllurinn í Keflavík lokast í lengri tíma.

Við getum ekki sett tappa í gíginn en við getum ýmislegt til að draga úr neikvæðum áhrifum. Það er brýnt að hugsa um það nú þegar við stefnum inn í nýtt gostímabil. Við vitum ekki hvernig það verður en áhættan verður meiri næstu 200 árin en hún hefur verið. Við fengum milda viðvörun í fyrra og það er okkur í hag að taka þau skilaboð sem við fengum þá til að búa okkur í haginn. Ég held að við leysum það ekki nema með öðrum flugvelli.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.