Verður bras að koma kjörgögnum í Egilsstaði en ætti að takast
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 30. nóv 2024 22:30 • Uppfært 30. nóv 2024 22:31
Síðustu kjörstaðir á Austurlandi lokuðu klukkan tíu í kvöld. Færð er að þyngjast í Fjarðabyggð sem gæti tafið flutning kjörgagna í Egilsstaði þaðan sem til stendur að fljúga með þau til Akureyrar.
Ekki liggur fyrir endanleg kjörsókn í þeim kjördeildum sem lokuðu klukkan tíu. Lokað var á Seyðisfirði klukkan hálf níu og þar endaði kjörsókn í 79,3%, þar af 58,9% á kjörstað.
Mokstursbíll keyrir á undan sögufrægum Unimog-bíl björgunarsveitarinnar Ísólfs yfir Fjarðarheiðina með kjörgögnin. Þeir fóru af stað rúmlega tíu í kvöld. Von er á þeim og kjörgögnum frá Djúpavogi í Egilsstaði um miðnætti. Þar er vonast til að búið verði að gera upp kjördeildir um miðnætti.
Meðan veðrið hefur skánað á Egilsstöðum með kvöldinu hefur bætt í vindinn og þar með kófið í Fjarðabyggð. Gísli Auðbergsson, formaður kjörstjórnar, segir þungfært vera orðið milli flestra byggðarlaga þar. Vegagerðin mun veita aðstoð við að koma kjörgögnum á áfangastað. „Þetta verður bras en hefst meðan Fagridalurinn lokar ekki,“ segir hann.
Unimog-bíll björgunarsveitarinnar Ísólfs ferðbúinn við kjörstað á Seyðisfirði fyrr í kvöld. Mynd: Helgi Haraldsson