Verið að biðja um að öryggisþátturinn verði metinn nánar við forgangsröðun jarðganga

Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, segir minnisblað um jarðgöng á Austurlandi, sem hann lagði fram á fundi ríkisstjórnarinnar síðasta föstudag, snúast um ákall að öryggi og hlutverk við almannavarnir verði metin nánar þegar jarðgangakostum á Austurlandi sé forgangsraðað. Hann efast um að haldið verði áfram til Norðfjarðar um Mjóafjörð í náinni framtíð, eins og ráð hefur verið gert, ef Fjarðarheiðargöng verða að veruleika.

Jón ræddi á fundi ríkisstjórnarinnar síðasta föstudag sjónarmið Almannavarna um jarðgöng á Austurlandi. Dómsmálaráðuneytið hefur hafnað ósk Austurfréttar um afrit af minnisblaði sem þar lá til grundvallar. Almannavarnir hafa vísað öllum spurningum um það til ráðuneytisins.

Austurfrétt óskaði við Jón hvort hann gæti lesið upp minnisblaðið, þar sem ráðherra hefur heimild umfram ráðuneytið, til að ræða innihald þess. Hann varð ekki við þeirri ósk en sagðist geta farið yfir sjónarmiðin sem lægju til grundvallar því.

„Það er mat okkar að nú þegar til stendur að fara í þessa stóru framkvæmd og höfum upplifað þessa nýlegu atburði fyrir austan, sem minna okkur á válegar aðstæður þar sem mannslíf geta verið í húfi, að þá gætu T-göngin verið líklegri til að geta greitt leið björgunarliðs. Staðreyndin er að björgunarlið sem sent var til að mynda frá höfuðborgarsvæðinu og frá Fljótsdalshéraði komst ekki á staðinn.

Þótt snjóflóðahætta kunni að vera á leiðinni gefur það samt auga leið að göng sem tengja byggðirnar saman geta skipt máli. Við töldum ástæðu til þess að vekja athygli á því og viðra þau sjónarmið til að skoða forgangsröðunina sem er til grundvallar.“

Samtal við stjórnendur almannavarna á landsvísu


Aðspurður um hverjir stæðu að baki þessu mati svaraði Jón að það væru hann og þeir sem veiti almannavörnum í landinu forstöðu. „Þetta er lagt fram eftir samtal milli okkar um þessa stöðu. Þá var tekin ákvörðun að vekja athygli á þessu sjónarmiði á vettvangi ríkisstjórnarinnar.“

Nánar aðspurður út í hvort heimafólk hefði verið með í ráðum, svo sem almannavarnanefnd á Austurlandi, sagði Jón að ráðuneytið hefði verið í samskiptum við stjórnendur almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. „Ég þekki ekki hvort þau voru í samskiptum við heimamenn.“ Austurfrétt hefur sent beiðnir til almannavarna um hvort samráð hafi verið haft við Austfirðinga að þessu sinni.

Tíminn skiptir máli í bráðatilfellum


Sem samgönguráðherra skipaði Jón starfshóp árið 2017 til að bera saman jarðgangakosti til að rjúfa vetrareinangrun Seyðisfjarðar. Þar voru skoðuð Fjarðarheiðargöng, Fjarðarheiðargöng með göngum áfram til Mjóafjarðar og Norðfjarðar, svokölluð hringleið og göng frá Seyðisfirði til Norðfjarðar um Mjóafjörð með tengingu til Fljótsdalshéraðs eða T-göngin. Starfshópurinn skilaði skýrslu sumarið 2019 en þá var Sigurður Ingi Jóhannsson tekinn við ráðuneytinu.

„Það ber að hafa í huga að þegar er um að ræða snjóflóðahættu eins og var í Neskaupstað og víðar að þá skiptir tíminn sköpum fyrir björgunarlið ef snjóflóð falla á staði þar sem fólk er. Við þekkjum frá snjóflóðunum 1995 að það skipti öllu máli að björgunarlið komst um jarðgöng frá Ísafirði yfir til Önundarfjarðar, þótt þau væru ekki formlega opnuð. Ég er ekki viss um að þessi þáttur hafi verið skoðaður sérstaklega í valkostagreiningunni.“

Starfshópurinn fékk KPMG til að gera samfélagsgreiningu á jarðgangakostunum. Í töflu með þeirri greiningu segir í köflum um sjúkraflug og heilbrigðisþjónustu að tenging við Hérað sé ótrygg með T-göngunum en greið með hringtengingunni. Á lista yfir viðmælendur er ekki að finna fulltrúa HSA, lögreglu, björgunarsveita eða almannavarna að öðru leyti en því að rætt er við bæjarstjóra Seyðisfjarðar, Fljótsdalshéraðs og Fjarðabyggðar sem einnig sitja í almannavarnanefndum.

Starfshópurinn leitaði einnig til Einars Sveinbjörnssonar, veðurfræðings, um álit veðurfar á leiðunum. Þar segir um gangamunna við Seyðisfjörð að þar sé færð almennt þokkaleg, nema þegar einnig sé snjóþungt í bænum. Eins þurfi að skoða snjóflóðahættu í botni Mjóafjarðar og snjóþyngsli séu þekkt í Fannardal inn af Norðfirði. Varað er við skafrenningi og hvassviðri á Slenjudal, þar sem göngin koma upp á Hérað, þótt þar sé alla jafna snjólétt.

Aðspurður út í þessa þætti sagðist Jón ekki þekkja hvaða greiningar lægju að baki skýrslu KPMG. Þáverandi vegamálastjóri hefði hins vegar upplýst hann um að búið væri að lækka gangamunna og vegi niður fyrir snjólínu á Slenjudal. Varðandi hvassviðrið sagði hann það almennt ekki standa fyrir þrifum í almannavarnaaðstæðum í erfiðum veðrum á Íslandi.

Óttast að seinni hluti hringtengingarinnar verði ekki að veruleika í náinni framtíð


Jón lýsti hins vegar þeirri skoðun sinni að hæpið væri að strax yrði haldið áfram frá Seyðisfirði til Norðfjarðar verði Fjarðarheiðargöng að veruleika, líkt og núverandi samgönguráðherra hefur lýst vilja til.

„Ég hef sagt í mörg ár, og gerði það sem samgönguráðherra, að það þarf að forgangsraða í jarðgangagerð til að rjúfa einangrun Seyðisfjarðar. Ef T-göngin yrðu farin þá yrði að bjóða þá leið út í einum áfanga.

Við erum fyrst og fremst að vekja athygli á að þessa öryggisþætti þurfi að skoða. Ef T-göngin hefðu verið til staðar þá hefðu þau komið björgunarliði hraðar á vettvang, þrátt fyrir snjóflóðahættu, en Fjarðarheiðargöngin.

Í þeim framkvæmdum sem fyrirhugaðar eru er eingöngu talað um Fjarðarheiðina. Hringleiðin slagar hátt í 100 milljarða. Ég hef áhyggjur af seinni hluta hennar. Víða bíða jarðgangaframkvæmdir og í ljósi sögunnar getum við sagt okkur að séu Fjarðarheiðargöngin komin sé ólíklegt að farið verði í seinni áfangann, nema forsendur fyrir vegagerð í landinu breytist. T-leiðin kostar ekki mikið meira en Fjarðarheiðargöngin ein og sér.“

Árið 2019 var kostnaður við Hringtenginguna talinn 64,3 milljarðar, þar af 33,5 milljarðar við Fjarðarheiðargöngin. Kostnaður við T-göngin var metinn 53,3 milljarðar. Hringleiðin þá var um 20% dýrari en T-töngin og þau aftur um 60% dýrari en Fjarðarheiðargöngin. Kostnaður við Fjarðarheiðargöngin hefur í síðustu tölum verið áætlaður 44-47 milljarðar króna.

Framreiknað á sömu forsendum og Fjarðarheiðargöngin, 27% hækkun sem er ögn umfram 25% hækkun vísitölu á sama tíma, er kostnaður við hringleiðina kominn í 82 milljarða og T-göngin í 67 milljarða. Austurfrétt hefur óskað eftir upplýsingum frá Vegagerðinni um uppfærðar tölur fyrir T-göngin. Jón nefndi að kröfur til lengri jarðganga hefðu verið auknar en sagðist ekki þekkja hvaða áhrif það hefði á kostnað.

Engar nýjar greiningar


Austurfrétt innti Jón ennfremur eftir því hvort við gerð minnisblaðsins hefði legið fyrir greiningar á til dæmis viðbragðstíma almannavarnatíma eftir göngum. Samkvæmt skýrslunni frá 2019 næst 3 km meiri stytting með hringleiðinni milli Egilsstaða og Norðfjarðar/Mjóafjarðar en með T-göngunum. Leiðin frá Seyðisfirði í Egilsstaði um T-göngin er hins vegar 15 km lengri.

„Við erum í sjálfu sér aðeins að vekja athygli á að að almannavarnasjónarmiðið verði tekið inn í samanburðinn og töldum okkur bera skylda til þess, sérstaklega í ljósi síðustu atburða. Niðurstaðan var að þetta yrði að skoða og gera nánari greiningu á.“

Jón kveðst ekki hafa trú á að slík greining verði til þess að tefja jarðgangaframkvæmdir mikið. „Ég hef þær upplýsingar frá þeim sem vel til þekkja varðandi berglög að jarðlög á svæðinu séu svipuð og annars staðar á Austfjörðum og því nýtist þær rannsóknir. En það er mikilvægt að meta það líka, hvort nánari greiningar hafi áhrif til tafa.“

Jarðfræðingar hafa lýst því að meiri áhætta sé fólgin í að bora lengri göng, þar sé óvissa meiri. Milli Mjóafjarðar og Norðfjarðar séu líkur á lausum setlögum sem geta skapað vandræði en slík lög voru í Norðfjarðargöngum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.