Verjandi segir heilbrigðiskerfið hafa brugðist illilega
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 12. feb 2025 18:34 • Uppfært 12. feb 2025 18:35
Verjandi Alfreðs Erlings Þórðarsonar, sem ákærður er fyrir tvöfalt manndráp í Neskaupstað í ágúst í fyrra, segir heilbrigðiskerfið hafa brugðist skjólstæðingi sínum illilega. Hann fer fram á að skjólstæðingur sinni verði sýknaður á þeim grundvelli að hann sé ósakhæfur.
Aðalmeðferð málsins lauk fyrir Héraðsdómi Austurlands í dag með málflutningi saksóknara, réttargæslumanns og verjanda.
Unnsteinn Örn Elvarsson, verjandi Alfreðs, sagði að ekki hefði með óyggjandi hætti tekist að sanna að Alfreð væri sá seki. Hann hafi gengist við að hafa komið inn á heimili hjónanna en aldrei játað manndrápin. Mikil skekkjumörk hafi verið á mögulegri dánarstundu.
Unnsteinn sagði að ekki hefði verið skoðað með blóðferlarannsókn hvernig blóð úr fólkinu hefðu borist á föt Alfreðs Erlings. Vettvangurinn hafi ekki verið nægjanlega tryggður og allt að átta einstaklingar farið um hann áður en hægt var að tryggja hann.
Unnsteinn sagði þó kröfu um sýknu byggja á mati geðlæknis sem taldi Alfreð Erling ósakhæfan. Unnsteinn sagði andleg veikindi hafa byrjað að gera vart við sig árið 2010 en Alfreð Erling farið að hraka af alvöru eftir 2015. Þá hafi ranghugmyndir verið farnar að gera vart við sig.
Útskrifaður tveimur vikum eftir úrskurð um nauðungarvistun
Austurglugginn og Morgunblaðið greindu frá því í síðustu viku að Alfreð Erling hefði frá september 2023 til júní 2024 þrisvar sinnum verið úrskurðaður til nauðungarvistunar. Úr þeirri fyrstu á Sjúkrahúsinu á Akureyri strauk hann en náðist daginn eftir og var þá vistaður á Landsspítalanum. Þaðan var hann útskrifaður eftir um mánuð eftir örlítinn bata, þótt hann hafnaði algjörlega allri eftirmeðferð og lyfjagjöf.
Hann kveikti í húsi sínu í febrúar í fyrra. Um miðjan maí var hann handtekinn á Egilsstöðum þar sem hann hótaði almenningi og lögreglu með hníf. Grunur er að hann hafi kveikt í iðnaðarhúsnæði þar þann dag. Þann 6. júní var hann úrskurðaður til nauðungarvistunar í allt að 12 vikur.
Unnsteinn sagði að Alfreð Erling hefði verið sleppt úr þeirri vistun tveimur vikum síðar eða 20. júní. Útskrift fellir nauðungvarvistunarúrskurð úr gildi. Unnsteinn sagði Alfreð Erling hafa verið útskrifaðan því hann vildi útskrifast og neitaði að taka lyf þótt hann væri enn með geðrofseinkenni. „Heilbrigðiskerfið hefur brugðist Alfreð illilega.“ Samkvæmt heimildum var Alfreð Erling í Reykjavík fyrst eftir útskriftina en farið austur í lok júlí. Fram kom við réttarhöldin að hann hefði fengið herbergi á gistiheimili á Reyðarfirði.
Saksóknari talaði á svipuðum nótum, sagði að búa yrði betur að geðheilbrigðismálum til að koma í veg fyrir að mál eins og þetta endurtækju sig.
Fjögur uppkomin börn þeirra látnu gera kröfur um 12 milljónir hvert í miskabætur. Réttargæslumaður þeirra ítrekaði kröfuna og rökstuddi fyrir dómi í dag. Unnsteinn Elvar hafnaði kröfunni fyrir hönd Alfreðs Erlings í dag.
Fréttin er unnin í samvinnu Morgunblaðsins og Austurfréttar