Verkföll samþykkt í leikskólum Fjarðabyggðar
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 20. feb 2025 09:26 • Uppfært 20. feb 2025 09:27
Félagar í Félagi leikskólakennara í Fjarðabyggð samþykktu í gær að fara í verkfall hafi nýir kjarasamningar ekki verið gerðir fyrir þann tíma. Verkfall kennara í Verkmenntaskóla Austurlands hefst á morgun.
Í kjölfar þess að verkföll kennara í stökum skólum voru dæmd ólögleg í byrjun síðustu viku, á þeim forsendum að sveitarfélögin en ekki skólarnir væru vinnuveitendurnir, hófu kennarar undirbúning verkfalla í sveitarfélögum. Kennarar í leikskólanum Lyngholti á Reyðarfirði voru þá búnir að vera viku í verkfalli.
Í gær voru úrslit opinberuð í atkvæðagreiðslu leikskólakennara í annars vegar Fjarðabyggð, hins vegar Hafnarfirði. Ekki er tekið fram hvernig úrslitin voru í hvoru sveitarfélagi í tilkynningu Kennarasambandsins, aðeins að 100% þeirra sem kusu hafi samþykkt verkfallið í öðru og 98% í hinu. Á báðum stöðum var kjörsókn yfir 80%.
Verkföllin í Fjarðabyggð hefjast 24. mars, hafi ekki samist fyrir þann tíma og eru ótímabundin.
Að óbreyttu hefst á morgun ótímabundið verkfall sem kennarar í Verkmennaskóla Austurlands samþykktu í byrjun mánaðarins.