„Við erum líklega að verða fyrirmynd að einhverju leyti“

Enn eitt aðsóknarmetið var slegið á Tæknidegi fjölskyldunnar sem haldinn var í Verkmenntaskóla Austurlands síðastliðinn laugardag, en verkefnastjóri telur að um 1700 manns hafi mætt á staðinn.


„Í fyrra skrifuðu sig um 1200 manns í gestabókina og þá töldum við að um 1500 manns hafi mætt. Í ár skrifðu 1380 manns í bókina þannig að við gerum ráð fyrir að um 1700 gestir hafi litið við hjá okkur á laugardaginn,“ segir Hafliði Hafliðason, verkefnastjóri Tæknidags fjölskyldunnar.

Hafliði segir stjörnutjaldið hafa vakið mikla lukku hjá bæði börnum og fullorðnum, sem og krufningin, en í ár mætti Þórður Júlíusson, fyrrverandi kennari við skólann bæði með mink og hænu til að kryfja. „Krakkarnir hrúguðust í kringum hann, en þeim þykir alveg magnað að flylgjast með honum í krufningunni.“

Aðspurður hvort eitthvað standi uppúr að Tæknideginum loknum segir Hafliði; „Kannski svona fyrir okkur sem að þessu stöndum, bara hvað allt gekk vel og það að allir eru boðnir og búnir að aðstoða okkur við að gera þetta sem best, hvort sem það er að lána hluti eða þá vera með kynningar á sinni starfsemi.“

Ráðherra var hrifinn
Ný suðuaðstaða innan skólans var formlega vígð á Tæknidaginn, en unnið hefur verið að henni hörðum höndum síðustu mánuði. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, klippti á borðann ásamt nöfnu sinni, Lilju Guðnýju Jóhannesdóttur, skólameistara VA.

„Ráðherra var mjög hrifin af þessu og hún var ánægð með að geta komið á Tæknidaginn. Hún talaði um að við værum að gera góða hluti með að kynna verknám með þessum hætti,“ segir Hafliði, en viðburðurinn er nú þegar farinn að spyrjast út í aðra landshluta.

„Hingað komu til dæmis fjórir kennarar frá Ólafsfirði til þess að njósna hvernig við stæðum að þessu, en verið er að hugleiða eitthvað svipað fyrir Framhaldsskólann á Tröllaskaga. Okkar verkefni hefur spurst út og við erum líklega að verða fyrirmynd að einhverju leyti,“ segir Hafliði sem strax er farinn að huga að næsta Tæknidegi fjölskyldunnar. „Nú förum við fljótlega að festa dagsetningu og tryggja okkur eitthvað spennandi atriði að ári.“

Ljósmynd: VA.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.