Skip to main content

Víða rafmangslaust eftir nóttina og erfitt að koma viðgerðarflokkum á staðinn

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 20. jan 2025 07:41Uppfært 20. jan 2025 07:45

Rafmagnslaust hefur verið á Stöðvarfirði síðan klukkan fjögur í nótt og víða á sveitabæjum á Austfjörðum frá miðnætti. Sums staðar er ekki enn ljóst hvað veldur rafmagnsleysinu á meðan annars staðar er beðið eftir að öruggt verði að senda viðgerðarflokka af stað.


Stöðfirðingar hafa verið án rafmagns frá því um klukkan fjögur í nótt. Samkvæmt upplýsingum frá bilanavakt Rarik eru fimm staurar brotnir rétt við þorpið í línunni þangað.

Beðið er eftir upplýsingum um hvort snjóflóðahætta á vegum upp á hvort öruggt sé að senda viðferðarflokk af stað. Fyrsta skrefið yrði að virkja tengingu þannig hægt verði að senda rafmagn aðra leið til bæjarins.

Innst í Berufirði hefur verið rafmagnslaust frá því um klukkan tvö í nótt. Þar brann rafmagnsstaur.

Frá Berunesi að Vattarnesi í Reyðarfirði og frá Tungu að Grænnípu í Fáskrúðsfirði hefur verið rafmagnslaust frá því um miðnætti. Að lokum hefur verið rafmangslaust frá Djúpavogi og út Álftafjörð frá því um klukkan sjö í gærkvöldi.

Á þessum stöðum er enn leitað að bilun. Fólk sem hefur upplýsingar um þær er hvatt til að hringja í vaktsíma Rarik 528-9000.

Snjóflóð féll í Vattarnesskriðum en stöðvaðist nokkuð fyrir ofan veg. Að auki féllu snjóflóð í Færivallaskriðum, sem lokaði veginum milli Breiðdalsvíkur og Stöðvarfjarðar og í Hvalnesskriðum þannig leiðinni milli Djúpavogs og Hafnar var lokað.

Rarik hafði áður tilkynnt að heitavatnslaust yrði á Seyðisfirði í dag vegna vinnu við dreifikerfi. Ekki er útlit fyrir að hægt verði að ráðast í þá vinnu. Kafsnjór er þar og lokanir á vegum.

Almennt er ófærð á Austfjörðum en mokstur hafinn á nokkrum stöðum.