Viðgerðarflokkar Rarik að komast af stað
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 20. jan 2025 12:13 • Uppfært 20. jan 2025 12:15
Um 240 viðskiptavinir á Austurlandi verða án rafmagns frameftir degi. Línur eru ísaðar, staurar brotnir og illfært fyrir viðgerðarflokka. Hæpið er að alls staðar verði hægt að gera við að fullu í dag.
Flestir viðskiptavinirnir, eða 190 talsins, eru á Stöðvarfirði. Rafmagn fór af þar um klukkan fjögur í nótt. Að minnsta kosti 12 staurastæður eru brotnar í raflínunni sem liggur til bæjarins.
Framkvæmdaflokkar munu í dag vinna að því að tengja jarðstreng á svæðinu en til þess þarf að koma frekari búnaði á staðinn. Verið er að opna vegi og styttist í að framkvæmdaflokkur og efni komi á staðinn, samkvæmt upplýsingum frá Rarik.
Lengsta rafmagnsleysið er frá Bragðavöllum í Hamarsfirði að Þvottárskriðum en þar fór rafmagnið af um klukkan sjö í gærkvöldi. Enn er leitað að bilun. Ekkert hnjask sást á línum í morgun en skyggni var erfitt. Verið er að moka út snjóflóði sem féll í Hvalnesskriðum. Farið verður í frekari bilanaleit og viðgerð þegar hægt er.
Rafmagnslaust er innst í Berufirði. Þar er vitað af staur sem brann og línu sem liggur niðri við veg þannig varasamt er að fara um fyrir hærri bíla. Björgunarsveitin á Djúpavogi er komin á staðinn í leit að frekari bilunum. Þar fór rafmagnið af um miðnætti.
Í sunnanverðum Reyðarfirði fór rafmagnið af um miðnætti frá Berunesi að Vattarnesi. Þar slitnaði vír. Vegagerðin ryður veginn síðar í dag þannig að hægt verði að senda viðgerðarflokk á staðinn. Staðan er sú sama í sunnanverðum Fáskrúðsfirði, frá Tungu að Grænnípu, nema að þar hefur bilunin ekki enn fundist.
Aðstoð að norðan og sunnan
Í yfirliti frá Rarik segir að álagi hafi verið á línur vegna ísingar og seltu en ísingin hleðst á línurnar og slítur þær. Staurar geta einnig brotnað undan álagi. Mikil selta veldur leiðni til jarðar og þá brenna staurarnir.
Viðgerðir geta í versta falli tekið einhverja daga. Verið er að undirbúa varaafl sem einstakir viðskiptavinir verða tengdir við meðan gert er við. Illfært hefur verið á Austfjörðum í morgun en bæði veður og færð eru að skána þannig viðgerðarflokkar komast af stað. Unnið er að því að flytja mannskap frá Norðurlandi til að aðstoða við viðgerðir.
Þessu til viðbótar er rafmangslaust á einhverjum bæjum í Lóni þótt varaafli hafi verið komið á. Þar eru brotnir að minnsta kosti tíu staurar og leiðarar slitnir. Viðgerðarflokkur frá Suðurlandi er á leiðinni til að gera við.
Næstu upplýsinga frá Rarik er að vænta um klukkan þrjú í dag.