Viðstöðulaust spurt um ferðir út í Papey

Karl Guðmundsson framkvæmdastjóri Papeyjarferða segir að það sé viðstöðulaust spurt um ferðir út í Papey og svo hafi verið um nokkurn tíma. Ferjureksturinn liggur hinsvegar niðri og hefur verið til sölu frá því skömmu eftir áramót.

Papeyjarferðir hafa séð um ferjurekstur milli Djúpavogs og Papeyjar um árabil á bátnum Gísla. Hvað söluna varðar er um að ræða bátinn, aðrar eignir hlutafélagsins og ýmislegt smálegt sem fylgir með ferjurekstrinum. Báturinn tekur 22 manns í einu.

Aðspurður um afhverju hann sjósetji ekki Gísla aftur og sjái áfram um reksturinn sjálfur segir Karl að það sé orðið of seint.

„Það er of langt liðið á sumarið til þess. Þetta tekur tíma, það þarf að ráða áhöfn og svo framvegis,“ segir Karl. „En ef heldur sem horfir set ég þetta í gang sjálfur á næsta ári.“

Fram kemur í máli Karls að síminn hjá honum hafi farið að hringja strax eftir að sóttvörnum vegna COVID var aflétt fyrr í sumar.

„Síminn hefur eiginlega ekki stoppað síðan en því miður er það aldrei símtal um kaup á rekstrinum,“ segir Karl.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.