Vildi auka áhuga á sveitarstjórnarfundum Múlaþings en undirtektir litlar
Á köflum eru fundir sveitarstjórna meira eða minna hreinir afgreiðslufundir þar sem samþykktar eru, eða ekki, tillögur frá hinum og þessum nefndunum og oft án mikillar umræðu. Sveitarstjórnarfulltrúi Miðflokks í Múlaþingi lagði til fyrir skömmu að bæta við reglulega dagskrárliði í því skyni að vekja meiri áhuga almennings á ákvörðunum sveitarfélagsins. Honum varð ekki sú kápan úr því klæðinu.
Þetta mál Þrastar var tekið fyrir á sveitarstjórnarfundi fyrr í mánuðinum en hann segir mjög miður hvað lítill áhugi mælist meðal íbúa sveitarfélagsins á erindum, sem íbúa snertir beint, sem tekin eru fyrir á fundum. Tekur hann sem dæmi afar lítið áhorf, beint eða óbeint, á fundi sveitarstjórnar á vefmiðlinum YouTube. Fjöldi heildaráhorfa þar ná oft ekki einum tug áhorfenda.
Áhugaleysið mikið
Oddviti Miðflokksins hefur ekki rangt fyrir sér hvað áhugann varðar. Það líklega allra besta leiðin fyrir íbúa Múlaþings til að glöggva sig á skoðunum eða ákvörðunum sveitarstjórnarfulltrúa að fylgjast með sveitarstjórnarfundum sem eru alltaf í beinni á vefnum. Ellegar skoða fundina síðar ef illa hittir á. Þó einn og einn fundur nái áhorfi allt að hundrað manns eða fleiri er áhorfendafjöldinn oftar en ekki innan við tíu manns sem gerir um 0,2% af heildaríbúafjölda sveitarfélagsins.
„Sem þýðir,“ segir Þröstur „að betur þarf að gera til að vekja áhuga íbúa á málefnum sem snerta alla beint meira eða minna. Svo ég fari bara örstutt yfir hvað ég var að leggja til þá er það nýr fastur liður í störfum sveitarstjórnar sem fengi vinnunafnið hjartað. Þar gæfist sveitarstjórnarfulltrúum tækifæri til að [...] halda tölu um sín hjartans mál í svona tvær mínútur eða svo. Engin yrðu andsvörin samkvæmt tillögu minni.
Formgalli
En tilgangurinn helgar meðalið stendur einhvers staðar segir Þröstur.
„Ég skil alveg tillögu meirihlutans að flauta þessa tillögu bara út af vegna formgalla því fundarsköp í raun leyfa þetta ekki. Ég játa á mig heimsku og klaufaskap að hafa ekki athugað þá hlið málsins betur. En spurningin sem ég legg fyrir fulltrúa er hvort að tilgangur þessa sé góður. Ef svo er þá hlýtur að vera hægt að finna lausn svo þetta geti orðið að veruleika. En ef það er enginn áhugi þá bara flautum við þetta út af. En ég tel víst að ef fulltrúar fengju tvær mínútur eða svo til að tjá sig um sitt hjartans mál varðandi rekstur sveitarfélagsins má búast við auknum áhuga íbúa á slíkum fundum. Aukinn áhugi þýðir að fólk er þá betur meðvitað um hlutina þegar að kosningum kemur.“
Tillaga Þrastar var felld með sex atkvæðum, tveir sátu hjá meðan þrír fulltrúar studdu málið. Meirihlutinn felldi tillöguna í lokin því slíkt væri ekki í samræmi við fundarreglur sveitarfélagsins.