Vilja að tekið verði tillit til umhverfissjónarmiða og dýravelferðar við opinber innkaup á matvöru

Tveir þingmenn úr Norðausturkjördæmi eru meðal flutningsmanna að tillögu til þingsályktunar um vistvæn opinber innkaup á matvöru. Markmið frumvarpsins er bætt velferð dýra og verndun umhverfis.

Samkvæmt tillögunni er fjármála- og efnahagsráðherra falið að vinna frumvarp þess efnis að ávallt skuli tekið tillit til umhverfissjónarmiða og dýravelferðar við opinber innkaup á matvöru. Frumvarpið verði lagt fyrir Alþingi fyrir lok desember 2019.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að miklu skipti að lágmarka losun gróðurhúsaloftegunda, notkun skaðlegra hormóna og eiturefna og ofnotkun sýklalyfja sem haft geti í för með sér ýmis skaðleg áhrif á umhverfið og velferð dýra.

Þar geti ríki og sveitarfélög haft veruleg áhrif með að innkaupum á matvöru en áætlað er að um 150.000 manns eigi reglulega kost á að borða í mötuneytum hins opinbera.

Bent er á að íslensk lög um opinber innkaup byggi á evrópskri tilskipun þar sem viðurkennt er að nýta megi opinber innkaup til að vinna að umhverfisvernd og velferð dýra.

Lög um opinber innkaup beinist þó einkum að því að tryggja að innkaup séu hagkvæm og gera opinberum aðilum almennt aðeins heimilt, en ekki skylt, að taka tillit til umhverfisverndar við innkaup. Með tillögunni sé lagt til grundvallar að ávallt verði tekið tillit til umhverfisverndar og dýravelferðar við opinber innkaup á matvöru.

Þórunn Egilsdóttir, þingmaður frá Vopnafirði er fyrsti flutningsmaður tillögunnar en þrír aðrar samflokkskonur hennar úr Framsóknarflokknum eru meðflutningsmenn, þar með Fáskrúðsfirðingurinn Líneik Anna Sævarsdóttir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.