Skip to main content

Vilja beita sér vegna langvarandi fjárskorts lögreglu á Austurlandi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 16. jan 2025 10:13Uppfært 16. jan 2025 10:27

Samband sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) hefur hug á að funda með lögreglustjóra Lögreglunnar á Austurlandi með það að markmiði að geta beitt sér á einhvern jákvæðan hátt vegna langvarandi fjárskorts lögregluyfirvalda í fjórðungnum.

Þetta mál var eitt þeirra sem kom til umræðu utan dagskrár á síðasta stjórnarfundi SSA sem fram fór um miðjan síðasta mánuð en kveikjan þar voru fyrri umræður á vettvangi sveitarstjórnar Múlaþings um þetta sama málefni. Þar sérstaklega erindi sem barst sveitarstjórn frá lögreglunni síðastliðið haust þar sem óskað var nokkurra milljóna króna fjárstuðnings til kaupa og uppsetningar á löggæslumyndavélum við Fellabæ.

Þó það ákveðna erindi hafi verið samþykkt var bókað af því tilefni að óeðlilegt væri að sveitarfélögin væru að leggja lögreglu lið fjárhagslega enda væri rekstur löggæslu í landinu á forræði ríkisins en ekki sveitarfélaga landsins.

Langvarandi fjársvelti lögreglu í landinu er þó víða vandamál eins og fram kom glögglega í nýliðnum Alþingiskosningum þar sem nánast allir flokkar í framboði töldu miður hvað naumt hefði verið skammtað til löggæslu hérlendis. Var það einmitt eitt fyrsta loforð nýrrar ríkisstjórnar að fjölga skyldi lögreglumönnum í landinu strax og færi gæfist.

Dagmar Ýr Stefánsdóttir, fráfarandi framkvæmdastjóri Austurbrúar, segir fund með lögreglustjóra framunandan en þar verði skoðað með hvaða hætti SSA geti hugsanlega lagt sín lóð á vogarskálarnar um sanngjarnara framlag til löggæslu á Austurlandi.