Vilja leggja áherslu á langtímasýn fyrir nýtt sveitarfélag

Langtíðarframtíðarsýn, með áherslu á þátttöku íbúa, verður eitt helsta áherslumál Miðflokksins í komandi sveitarstjórnarkosningum nýsameinaðs sveitarfélags Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar.

Flokksfélag fyrir sveitarfélagið var stofnað á fundi í desember og stjórn kosin. Nú er búið að móta áherslur framboðsins fyrir kosningarnar.

Þröstur Jónsson, formaður félagsins, segir að megináherslunum megi skipa í þrennt. Í fyrsta lagi langtímasýn fyrir sveitarfélagið á öllum sviðum. Í öðru lagi áherslu á þátttöku íbúa í mótun þeirrar sýnar og í þriðja lagi að tryggja sérstöku og styrkleika hvers byggðarlags nýja sveitarfélagsins.

„Kosningarnar eru að vissu leyti erfiðar því að miklu leyti er búið að leggja línuna með tillögum sameiningarnefndar. Við viljum þó leggja áherslu á langtímasýnina því okkur finnst hana oft skorta.

Oft er horft á næstu 2-3 ár á spretthlaupi eftir skammtímalausnum, en við viljum horfa til 20-30 ára. Hvernig á skipulags- og heilbrigðismálum að vera háttað?

Við getum nefnt sem dæmi að til stendur að gera göng milli Héraðs og Seyðisfjarðar. Til þessa hefur verið gengið út frá því að umferðin komi niður í gegnum Egilsstaði um Selbrekku og Fagradalsbraut en það hefur lítið verið nefnt um aðra kosti.

Við viljum að heimafólk hafi frumkvæðið og segi hvað það vill, ekki að ákvarðanirnar komu frá stofnunum fyrir sunnan.

Miðflokkurinn hefur markað stefnu um „Ísland allt“ þannig að hver landshluti njóti sinnar sérstöðu. Við uppfærum hana á „sveitarfélagið allt“. Við þekkjum vandræði úr öðrum sveitarfélögum þar sem jaðarsvæði hafa orðið útundan þrátt fyrir fögur fyrirheit um annað. Við viljum forðast það með að heyra í íbúum um hvaða sérstöðu þeir vilja varðveita.“

Mikill áhugi á framboðinu

Félagið mun stilla upp á framboðslista sinn. Sú vinna er í gangi en um helgina stendur það fyrir fundum með formanni flokksins, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og þingmanninum Önnu Kolbrúnu Árnadóttur í öllum byggðakjörnum nýs sveitarfélagsins.

„Tilgangur fundanna er meðal annars að kynna flokksfélagið. Það voru bara Héraðsbúar sem mættu á stofnfundinn, en við viljum fá fólk frá öllum stöðum með á listann,“ segir Þröstur.

Hann segist finna fyrir talsverðum áhuga á framboðinu. „Ég fer varla út úr húsi án þess að hitta einhvern sem vilji ræða málin og við heyrum þessar áherslur um langtímasýn í samtölum okkar við fólk.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.