Vilja mótvægisaðgerðir vegna snarhækkandi raforkuverðs
Heimastjórn Fljótsdalshéraðs kallar eftir beinum mótvægisaðgerðum vegna mikilla hækkana orkuverðs á köldum svæðum landsins. Sá kostnaður hækkað um 80 prósent síðustu misserin.
Slíkt var bókað og samþykkt á síðasta fundi heimastjórnarinnar en á fundinum lýstu stjórnarmenn áhyggjum bæði af þróuninni á raforkuverði og dreifingarkostnaði til heimila og fyrirtækja.
Þó kringum 90 prósent landsmanna njóti þess að hafa aðgang að jarðhita til kyndingar húsa sinna er það ekki raunin mikið austanlands hvort sem litið er til Fljótsdalshéraðs eða annarra svæða fjórðungsins. Víða þarf að kynda með raforku eða jafnvel olíu á gamla mátann.
Ríkið niðurgreiðir að hluta til raforkukostnað til allra heimila á köldum svæðum en sú niðurgreiðsla er aðeins tiltekin prósenta af kostnaði. Sá kostnaður hefur hins vegar rokið upp undanfarin misseri. Kom það skýrt fram á síðasta aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum sem fram fór fyrr í vetur að orkuverð til íbúa og fyrirtækja á þeim svæðum hefur hækkað um hvorki meira né minna en 80 prósent. Kom þar jafnframt fram nauðsyn þess að koma á sérstakri verðskrá fyrir kyndingu til húshitunar