Vilja skapa meira líf með list við Ægisgötu á Reyðarfirði næsta sumar

Ef að líkum lætur verður töluvert meira líf milli Ægisgötu og Strandgötu á Reyðarfirði næsta sumar en verið hefur. Það helgast af tillögu um að koma þar fyrir sérstöku útisýningarsvæði þar sem listamenn geta sýnt verk sín.

Fáir staðir á Reyðarfirði eru almennt fjölsóttari en verslunar- og skrifstofukjarninn Molinn þar sem finna má marga nauðsynlega þjónustu fyrir íbúana eins og banka og stórverslun auk þess sem skrifstofur sveitarfélagsins eru þar á annarri hæð. Til norðurs af bílastæðunum við Molann má finna þúsund fermetra grassvæði sem myndi henta vel sem útisýningarsvæði að mati skipulags- og umhverfisfulltrúa og forstöðumanns Menningarstofnunar Fjarðabyggðar. Hafa þeir kynnt hugmyndina fyrir stjórn menningar- og safnastofnunar Fjarðabyggðar sem hefur tekið vel undir.

Á meðfylgjandi mynd má sjá grassvæðið sem hér um ræðir en fyrir utan fjölsóttan Molann þar við hlið þá er töluverð umferð um Ægisgötu hvers vegfarendur myndu einnig nýta góðs af listaverkum á þessum stað.

Segir í umsögn stjórnar menningarstofu- og safnastofnunar að ef fallist verði á hugmynd þessa gæti skapast sá möguleiki að Menningarstofa myndi bjóða listamönnum svæðið til sýningarhalds en útilistaverk af þessum toga eru algeng á mörgum grænum svæðum erlendra borga og bæja.

Skjáskot af staðnum sem um ræðir mitt á milli Strand- og Ægisgötu. Þann stað væri hægt að glæða lífi með listasýningum undir beru lofti og gæti orðið að veruleika strax næsta sumar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.