Orkumálinn 2024

„Viljum að Eiðar verði aftur mikilvægur staður á Austurlandi“

Einar Ben Þorsteinsson og Kristmann Þór Pálmason hafa keypt jörðina Eiða á Fljótsdalshéraði. Þeir segjast finna fyrir því að margir Austfirðingar beri taugar til staðarins.

„Eiðar eiga stað í hjarta svo margra Austfirðinga, þar á meðal okkar. Við viljum að hann verði aftur mikilvægur staður á Austurlandi og öðlist sess í hjarta sem flestra,“ segir Einar.

„Afi Kristmanns bjó á Eiðum þannig Kristmann er að miklu leyti alinn þar upp. Ég var í sumarbúðum þarna auk þess að hjóla út í Eiða og leika við strákana sem þar bjuggu.“

Eiðar hafa verið til sölu í tæp tvö ár eftir að Landsbankinn eignaðist jörðina í uppgjöri við Sigurjón Sighvatsson, sem keypti jörðina í félagi við fleiri fyrir um tuttugu árum.

Jörðin sjálf er 768 hektarar en á henni standa byggingar fyrrum Alþýðuskólans á Eiðum. Ferðaþjónusta var rekin í þeim eftir að skólinn var lagður niður. Einar segir horft til slíks reksturs en ekki liggi fyrir hvernig.

„Eins og flestir vita þá þarfnast fasteignirnar þarna viðhalds. Okkar markmið er að staðurinn verði með tíð og tíma sjálfbær. Jörðin er að mörgu leyti náttúruperla og meðal þeirra staða á Austurlandi sem fjölsóttir voru af ferðamönnum. Við munum leita fyrir okkur þar með tekjur.

Hlutirnir gerast hratt og langtímaplönin eru ekki alveg tilbúin. Það kemur í ljós hvort við förum í reksturinn sjálfir eða í samstarfi við aðra. Við teljum þetta gott tækifæri fyrir bæði okkur og staðinn á þessum tímapunktinn.“

Kaupverðið fæst ekki uppgefið en Einar segir alla fjármögnun tryggða og kaupin án fyrirvara. Þeir eigi að fá Eiða afhenta 1. nóvember. Hann segir fyrstu viðbrögð Austfirðinga við tíðindunum góð. „Þau eru mjög jákvæð. Við erum stoltir af því hvað fólk er tilbúið að standa á bakvið okkur.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.