Orkumálinn 2024

Vill Íslenska stríðsárasafnið í miðbæ Reyðarfjarðar

„Með þessu móti væri, að mínu mati, hægt að slá margar flugur í einu höggi; koma upp vísi að alvöru miðbæ, spara umtalsverðar fjárhæðir og gera safninu mun hærra undir höfði en hægt er á núverandi stað,“ segir Ragnar Sigurðsson, einn fulltrúa í starfshóp um framtíð Íslenska stríðsárasafnsins.

Starfshópur þessi hefur starfað frá síðasta hausti en markmið hópsins er að finna framtíðarsýn fyrir safnið en nýverið keypti bæjarfélagið mikið magn muna úr einkasafni fyrir Stríðsárasafnið en ekkert pláss er til staðar undir megnið af þeim munum. Þess utan er mikil þörf á endurbótum og viðhaldi núverandi bygginga safnsins og flókið mál að uppfylla nútímakröfur um aðgengi fyrir fatlaða. Lágmarkskostnaður við að færa ofangreint til betri vegar er talinn ekki undir 100 milljónum króna og líklega hærri upphæð en það.

Ragnar segir að hann hafi velt upp þeirri hugmynd að koma safninu fyrir í miðbæ Reyðarfjarðar en af því gæti hlotist margvíslegur ávinningur. Ljóst sé að eigi að koma öllum munum fyrir á núverandi stað þurfi að bæta við byggingum á staðnum og hugsanlega nokkrum.

„Það segir sig sjálft að safn sem samanstendur af fjölmörgum litlum byggingum á stað þar sem aðgengi er takmarkað verður líklega aldrei spennandi kostur. Nær lagi tel ég er að skoða einhver þau svæði sem eru til sölu á miðbæjarsvæðinu, til dæmis Húsasmiðjulóðin, og byggja upp nýtt glæsilegt safn þar. Slíkt gæti jafnframt verið vísir að því að byggja upp fallegt og heillandi hjarta í bænum en það vantar sárlega. Í viðbót við slíkt miðbæjarsafn mætti útbúa fallega gönguleið upp að núverandi safni.“

Ragnar bendir jafnframt á að það sé síst minni stríðsárasaga á miðbæjarsvæðinu en á núverandi stað.

„Eitt stórt og fallegt safn í miðbænum yrði lyftistöng fyrir bæði safnið sjálft en ekki síður bæinn sem bráðvantar fallegan, heillandi miðbæjarkjarna.“

Breyta þarf miklu til að Íslenska stríðsárasafnið á Reyðarfirði geti gengt hlutverki sínu nú þegar mikill fjöldi nýrra muna hefur bæst við safnakostinn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.