Skip to main content
Það kemur reglulega fyrir að læknistímar falla niður fyrirvaralítið þegar suður er komið. Breyta þarf og bæta endurgreiðslukerfið vegna þess að mati þingmanns. Mynd Stjórnarráðið

Vill skýrari reglur um endurgreiðslur vegna sjúkra- og gistikostnaðar fólks frá landsbyggðinni

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 03. nóv 2025 10:18Uppfært 03. nóv 2025 10:27

Færri en tíu einstaklingar fara árlega fram á endurgreiðslu frá Sjúkratryggingum þegar tími hjá lækni fellur niður fyrirvaralítið eða fyrirvaralaust samkvæmt gögnum frá stofnuninni. Þingmaður Norðausturkjördæmis telur engan vafa leika á að þeir séu mun fleiri sem fyrir slíku verða en vita ekki hvert á að leita til að fá endurgreiðslu. Því þurfi að breyta nú þegar til stendur að rukka fólk fyrir alla þá tíma sem það ekki kemst í.

Það kemur nokkuð reglulega fyrir að fólk af landsbyggðinni, sem sækir suður í heilbrigðisþjónustu hvort sem er keyrandi eða flugleiðis, fær þau skilaboð með litlum eða engum fyrirvara, að fella þurfi læknistíma niður af einum eða öðrum orsökum. Jafnvel þegar fyrirvari er á niðurfellingunni er hann oft svo skammur að fólk er jafnvel þegar lagt af stað eða beinlínis komið á höfuðborgarsvæðið séu tímarnir mjög snemma morguns.

Ingibjörg Isaksen, þingmaður Framsóknarflokks í Norðausturkjördæmi, leitaði um daginn svara við hvort heilbrigðisráðherra, Alma D. Möller, þyrfti ekki með tilliti til nýja gjaldsins að einfalda og kynna fyrir fólki hvenær það á rétt á endurgreiðslu þegar tímar hjá heilbrigðisstofnunum falla niður án lögmæts fyrirvara og þá hvernig skuli sótt um þá endurgreiðslu.

Færri en tíu erindi árlega

Alma benti á í svari sínu að tilfellum þeim sem óskað sé endurgreiðslu vegna slíks sé afar fá samkvæmt tölum frá Sjúkratryggingum.

„Ef tími hjá lækni fellur skyndilega niður hafa Sjúkratryggingar endurgreitt útlagðan kostnað vegna fyrirhugaðrar ferðar fáist hann ekki endurgreiddur eftir öðrum leiðum. Slík mál koma upp í örfá skipti á ári og Sjúkratryggingar leitast eftir að leysa þau þannig að sjúklingur sitji ekki uppi með kostnað. Varðandi spurningu númer tvö, hvort ráðherra hafi látið kanna hversu algengt þetta er, þá hefur það ekki verið kannað hjá þjónustuveitendum ef sú er spurningin, enda er réttur til endurgreiðslu tryggður við þessar aðstæður að mati Sjúkratrygginga. Hins vegar fengum við þau svör frá Sjúkratryggingum að erindi sem berast Sjúkratryggingum eru færri en tíu á hverju ári er lúta að akkúrat þessu.“

Einfalda þarf reglur og kynna

Í samtali við Austurfrétt segir Ingibjörg persónulega hafa fregnað af mun fleiri tilvikum þar sem tímar hjá læknum á höfuðborgarsvæðinu falla niður en tölur Sjúkratrygginga gefa til kynna.

„Í raun var hún bara að lesa upp eitthvað sem einhver embættismaður hefur tekið saman. Það sem ég var að reyna að kalla eftir er að hún er núna að leggja fram breytingar á lögum um Sjúkratryggingar sem í raun skylda okkur til að borga fyrir tíma sem við komumst ekki í einhverra hluta vegna. Ég hef alveg skilning á slíku í grunninn því það eru tímar sem aðrir gætu hugsanlega notað í staðinn. En þá finnst mér að það sama eigi að gilda gagnvart heilbrigðisstofnunum. Ef að þær fella niður tíma með skömmum fyrirvara að þá borgi þær þann kostnað sem því fylgir fyrir viðkomandi. Þá er ég sérstaklega að hugsa um fólk af landsbyggðinni sem þarf að sækja sér heilbrigðisþjónustu á höfuðborgarsvæðinu.“

Aðspurð hvort það geti ekki verið flókið í framkvæmd telur Ingibjörg svo ekki vera:

„Í rauninni snýst þetta um að þegar þú ert búinn að leggja út fyrir kostnaði til að fara að sækja þér heilbrigðisþjónustu í Reykjavík, þú kominn til Reykjavíkur og ætlar að gista yfir nótt þá er allt þetta kostnaður sem þú ert þegar búinn að leggja út fyrir. Af því þú færð ekki stimpilinn fyrir komunni ef tíminn er felldur niður þá færðu ekki í öllum tilvikum endurgreitt. Ráðherra vill meina að þetta sé allt endurgreitt en ég hef heyrt frá mörgum að svo sé ekki.“

Og hvað með gistikostnað?

Ingibjörg spurði ráðherra einnig hvort ekki mætti koma betur til móts við landsbyggðarfólk sem þyrfti að sækja heilbrigðisþjónustu í höfuðborgina varðandi gistikostnað sem oft á tíðum fellur ekki undir endurgreiðslureglur.

„Það er eitt að koma til móts við ferðakostnaðinn. Það er annað líka að koma til móts við gistingu. Við getum tekið dæmi um fjölskyldu frá Djúpavogi með veikt barn sem er að keyra ítrekað eða fljúga til Reykjavíkur. Eldri borgari á Akureyri sem þarf að hefja ferðalag fyrir dögun til að mæta í einhverja blóðskilun, kona í áhættumeðgöngu á Vestfjörðum sem getur einungis fengið þjónustu í höfuðborginni og einstaklingur með krabbamein sem þarf geislameðferð stendur frammi fyrir því að þurfa að greiða fyrir mánaðarlanga dvöl í borginni. Það er eitt að koma til móts við ferðakostnaðinn. Það er annað líka að koma til móts við gistingu.“

Svaraði ráðherra því til að það væri vegna slíkra mála sem sjúkrahótelin væru rekin og reynslan af þeim góð en stóra málið væri fyrst og fremst að styrkja heilbrigðisþjónustu úti á landi:

„Varðandi gistingu þá erum við auðvitað með gistihótel og það ágætlega að því búið. Sjúklingur borgar 1890 krónur per nótt og fylgdarmaður 1890 plús fæðiskostnað sem er upphæð sem fer nálægt því sem Umboðsmaður skuldara telur vera fæðiskostnað. Fyrir mér er ekki síður mikilvægt að jafna aðgengi að heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Þar er gríðarlega margt undir. Það þarf að sérmennta fleiri heilbrigðisstéttir, nýta efnahagslega hvata til að fá fólk frekar út á land fremur en að sjúklingarnir þurfi að koma í bæinn, fjarheilbrigðisþjónusta og margt fleira.“

Niðurlægjandi fyrir fólk

Ingibjörg segist vera að hugsa um með hvaða hætti hún haldi málinu til streitu því ráðherra hafi í raun ekki svarað neinu. Þörf sé á að bæta hlutina frá því sem nú er:

„Ég hefði viljað að hún hefði svarað á þann hátt að í ljósi aðstæðna þá væri tími til kominn að endurskoða þessi mál í heild sinni. Tökum fjölskyldu með langveikt barn sem þarf að fara tvisvar til þrisvar suður með barnið sitt í hverjum mánuði til að fá þjónustu sem ekki er í boði í heimabyggð. Af því að barnið er langveikt þá á það rétt á niðurgreiðslu á kostnaði en foreldrar þurfa að fylgja barninu og þau þurfa að leggja út fyrir öllum þessum kostnaði. Ég veit um dæmi þess að foreldrar séu að maxa kreditkortin sín eða leita ölmusu hjá foreldrum sínum meðan það er að bíða endurgreiðslu. Þetta er bara niðurlægjandi fyrir fólk.“