Vindmyllugarður til skoðunar milli Vopna- og Bakkafjarðar
Til skoðunar eru hugmyndir um að koma á fót vindmyllugarði á mörkum Vopna- og Bakkafjarðar. Þessar hugmyndir eru á frumstigi en voru nýlega kynntar hreppsráði Vopnafjarðar.„Aðstæður til að beisla vindorku á þessu svæði eru mjög góðar,“ segir Hafsteinn Helgason forstöðumaður viðskiptaþróunarsviðs Eflu í samtali við Austurfrétt. „Það er vitað að á svæðinu er mjög vindasamt stóran hluta af árinu.
Það voru þeir Hafsteinn og Sigurgeir Tryggavason frá Summu sem kynntu hugmyndirnar fyrir hreppsráðinu.
Hafsteinn segir að fyrir utan að vera vindasamt er um mjög strjálbýlt svæði að ræða en jafnframt með góðu aðgengi frá vegakerfinu í kring.
„Þetta eru því kjöraðstæður fyrir framleiðslu á vindorku, raunar með þeim betri sem þekkjast á því sviði,“ segir Hafsteinn. „Það eina sem er neikvætt er hættan á ísingu og því þyrftu vindmyllurnar að vera með búnaði til að verjast slíku.
Hafsteinn leggur áherslu á að ekkert verði gert nema í fullu samráði við landeigendur og sveitarfélög á svæðinu.
Aðspurður um hve mikla orku væri hægt að vinna með vindmyllugarði á þessu svæði segir Hafsteinn að þeir hafi reiknað út að einn turn gæti afkastað um 3,2 megavöttum ef hann væri virkur um það bil 6 mánuði á ári. Hver turn þyrfti svo 12 hektara svæði í kringum sig.
„En það er ástæða til að leggja áherslu á að þetta mál er á algeru frumstigi enn sem komið er,“ segir Hafsteinn.