Vinna við að móta farveg Búðarár á Seyðisfirði

Hreinsunarstarf á Seyðisfirði gengur vel. Unnið er að því að móta farveg Búðarár auk þess sem verið er að hanna varnargarð við Fossgötu. Starfsmenn Veðurstofu hafa verið við mælingar og verða athuganir þeirra og niðurstöður ræddar í dag.

Þetta kemur fram á vefsíðu lögreglunnar, Þar segir að samráðsfundur lögreglunnar á Austurlandi, almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, Veðurstofu Íslands og Múlaþings var haldinn í gær. Fjallað var um stöðu hreinsunarstarfs meðal annars, vöktunar á hlíðinni ofan Seyðisfjarðar og hlýindakafla og úrkomu sem fyrirsjáanleg er á miðvikudagskvöld fram á fimmtudag.

Úrkoma verður kringum 20 mm í SA-átt frá miðvikudagskvöldi til fimmtudagsmorguns, snjóar ofan 300 m í fyrstu en hlýnar síðan og hækkar upp í u.þ.b. 800 m.

Um jólin þegar um vika var liðin frá skriðuhrinunni mældust 40 mm á rúmum sólarhring og ekki varð vart við neinar skriður eða aðrar hreyfingar í kringum það.

Svæðið hefur einnig fengið á sig þrjá hlýindakafla þar sem nýfallinn snjór bráðnaði ofan í jarðveginn án þess að vart yrði við hreyfingar. Ekki er talin sérstök hætta á skriðuföllum í komandi hlýindakafla en vel er fylgst með sjálfvirkum mælingum og aðstæðum.

Næsti samráðsfundur verður í dag.

Mynd; Lögreglan á Austurlandi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.