Vinna við snjóflóðavarnir í Neskaupstað hálfnuð
Framkvæmdum við þriðja áfanga snjóflóðavarna, byggingu varnargarðs og keila, ofan byggðar í Neskaupstað eru nú í fullum gangi og miðar vel áfram. Vinna við verkið hófst í júlí 2019 og er áætlað að henni ljúki í desember 2021. Framkvæmdir hafa gengið mjög vel og er verkið um það bil hálfnað.
Verktaki áætlar að vinna áfram á þessu ári á meðan veður leyfir. Við verkið hafa unnið 14 til 16 starfsmenn á stórvirkum vinnuvélum.
Fjallað er um málið á vefsíðu Fjarðarbyggðar sem aftur vísar í umfjöllun á vefsíðu Framkvæmdasýslu ríkisins.Um er að ræða þriðja áfanga í gerð snjóflóðavarna fyrir Neskaupstað. Áður voru kominn upp varnargarður og keilur neðan Drangagils, auk upptakavarna (net) efst í Drangagili, sem og varnargarðar og keilur neðan Tröllagilja og upptakastoðvirki efst í Tröllagiljum
Varnargarðurinn sem nú rís er rúmlega 10 metra hár, þar sem hann er hæstur. Hann er hlaðinn úr hleðslugrindum sem fylltar eru af fínmuldu grjóti og hlaðast upp eins og múrsteinar. Utan á hleðsluna kemur jarðvegur sem síðan er hulinn gróðri og göngustígum.
Verkefni felst í að byggja varnargarð ofan byggðar í Neskaupstað undan Urðarbotnum og Sniðgili. Um er að ræða 380 metra langan þvergarð og 16 keilur í tveimur röðum. Í verkinu felst einnig mótun yfirborðs skeringa flóðmegin við garða, gerð vinnuvega, varanlegra slóða, göngustíga og áningarstaða, gerð drenskurða, stækka umfang lækjarfarvega og rása, jöfnun yfirborðs og frágangur. Reynsla frá öðrum stöðum hefur sýnt að ofanflóðamannvirki þjóna víða hlutverki vinsælla útivistarsvæða.
Mynd: Framkvæmdasýsla ríkisins.