Vinstri græn: Vanhugsuð sparnaðarkrafa á HSA

ImageStjórn Svæðisfélags Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs á Héraði, Borgarfirði eystri og Seyðisfirði leggst eindregið gegn þeim harkalega niðurskurði sem boðaður er í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar á þjónustu Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA). Óttast er um samfélagsleg áhrif niðurskurðarins.

 

Þetta kemur fram í ályktun sem félagið sendi frá sér í dag. Sparnaðarkrafan er sögð „vanhugsuð“ og sparnaðurinn af henn „óljós vegna kostnaðar sem niðurskurðurinn mun leiða af sér, svo sem vegna sjúkraflutninga og greiðslu atvinnuleysisbóta til starfsfólks sem missir vinnuna. Skaðinn af aðgerðunum er hins vegar augljós og hann mun verða varanlegur, komi þessi niðurskurður til framkvæmda.“

„Austfirðingar eru líkt og aðrir landsmenn reiðubúnir að axla byrðar vegna efnahagsástandsins en krafa um 22% niðurskurð á framlögum ríkisins til HSA, þar af 52% niðurskurð á sjúkrasviði stofnunarinnar gengur einfaldlega alltof langt. Komi hún til framkvæmda mun grunnþjónusta, sem á að teljast sjálfsögð, verða þurrkuð út og tugum starfsmanna sagt upp störfum. Af því munu leiða mjög mikil neikvæð, samfélagsleg áhrif.“

Stjórnin tekur undir ályktun borgarafundar um heilbrigðismál á Austurlandi sem haldinn var á sunnudag. Stjórnin hvetur einnig stjórnvöld til að endurskoða niðurskurðarhugmyndirnar „og færa þær til þess horfs að þjónusta skerðist sem minnst og að sjálfsögð grunnþjónusta verði áfram til staðar.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar