VÍS sameinar skrifstofur á Egilsstöðum og Reyðarfirði
Vátryggingafélag Íslands hefur ákveðið að sameina þjónustuskrifstofur sínar á Egilsstöðum og Reyðarfirði frá og með næstu mánaðarmótum. Breytingin er hluti af endurskipulagningu þjónustumiðstöðva VÍS.Í tilkynningu frá fyrirtækinu í gær segir að framtíðarsýn þess hafi verið mótuð á þann hátt að aukin áhersla verði lögð á stafrænar lausnir í þjónustu við viðskiptavini.
Þróunin hafi verið sú að samskipti við viðskiptavini fari í vaxandi mæli í gegnum net í síma og þjónustukönnun hafi sýnt að þeir kalli eftir aukinni þjónustu á þeim vettvangi. Meðal annars er nú hægt að tilkynna öll tjón í gegnum vef VÍS.
Fyrsta skrefið verður að sameina þjónustuskrifstofur VÍS í sex sem verða eftirleiðis á Selfossi, Egilsstöðum, Akureyri, Sauðárkróki, Ísafirði og í Reykjavík.
Þetta þýðir að skrifstofan á Reyðarfirði verður sameinuð skrifstofunni á Egilsstöðum. Í svari VÍS við fyrirspurn Austurfréttar segir að engar uppsagnir tengist breytingunum. Starfsmanni á Reyðarfirði verði boðin vinna á Egilsstöðum.
„Við mótuðum nýlega skýra framtíðarsýn um að VÍS verði stafrænt þjónustufyrirtæki. Breytingarnar sem við gerum núna eru í takt við þá sýn og er ætlað samræma þjónustuna okkar og laga hana enn betur að þörfum viðskiptavina sem vilja einföld, flækjulaus og skilvirk tryggingaviðskipti,“ segir Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS, í tilkynningunni.
„Við sjáum skýr merki um að viðskiptavinir okkar vilja í síauknum mæli nota stafrænar leiðir til að eiga við okkur samskipti. Okkar trú er að sú eftirspurn fari vaxandi og kjarninn í okkar vegferð næstu misseri verður efla þjónustuna okkar á því sviði.“