Vitnaði í Kim Larsen í jómfrúarræðunni
María Hjálmarsdóttir, varaþingmaður frá Eskifirði, vitnaði í danska tónlistarmanninn Kim Larsen þegar hún flutti jómfrúarræðu sína á Alþingi í dag. Hún ræddi þar stöðu barna sem eiga foreldra sem standa einhverra hluta vegna höllum fæti.„Herra forseti. Mig langar aðeins að vitna í Kim Larsen, með leyfi forseta,“ sagði María í upphafi ræðu sinnar í dag en hún kom upp undir störfum þingsins.
María vísaði þar til fleygrar setningar sem tónlistarmaðurinn, sem lést í byrjun mánaðarins, lét falla í viðtali við danska ríkisútvarpið fyrir nokkrum árum en hún útleggst á íslensku: „Ég skil ekki til hvers ríkisstjórn er ef ekki til að hjálpa þeim sem minna mega sín. Þau sterku munu bjarga sér.“
María benti síðan á að foreldrar þyrftu að veita börnum sínum þá aðstoð sem þyrfti en erfitt yrði um verk ef á bjátaði hjá foreldrunum sjálfum. Þá yrði að vera til staðar öryggisnet þannig að börnin fái nauðsynlega þjónustu og viti hver réttur þeirra sé.
„Það á ekki að vera falið hver réttindi okkar eru og það á ekki að vera þannig að við þurfum að lesa í gegnum lagabálka til að berjast við kerfið,“ sagði María.
María tók sæti varaþingmanns Norðausturkjördæmis í gær í fjarveru Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar. Hún sat áður á þingi í viku í mars en kom í fyrsta sinn í ræðustól í dag.
Þá situr Norðfirðingurinn Ingibjörg Þórðardóttir á þingi sem varamaður Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir hönd Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Ingibjörg, sem þrisvar áður hefur komið inn sem varamaður, kom einnig upp í umræðum um störf þingsins og gagnrýndi naum framlög í nýrri samgönguáætlun til vegagerðar á Austurlandi.