„Vörslusvipting er síðasta úrræðið“
Forstjóri Matvælastofnunar segir að vörslusvipting á búfé sé alltaf síðasta úrræðið sem beitt sé þegar ekki er orðið við ítrekuðum áminningum. Öllu fé á bæ í Hjaltastaðaþinghá var í gær smalað heim og tekið.
Austurfrétt greindi frá vörslusviptingunni í gær. Samkvæmt heimildum Austurfréttar tók þátt í henni fjölmennt lið, meðal annars smalar sem fengnir voru annars staðar af landinu.
Eftir því sem næst verður komist hefur aðgerðin vofað yfir lengi. Stofnunin hefur ítrekað gert athugasemdir við búfjárhald á bænum. Hún mun hafa ráðið verktaka til aðstoðar á sauðburði í vor.
Ekki veittar upplýsingar um einstök bú
Hrönn Jörundsdóttir, forstjóri Matvælastofnunar, segir að stofnunin geti ekki tjáð sig um einstök málefni. Hún sendir frá sér mánaðarlegar tilkynningar um stjórnvaldsaðgerðir sínar en þær eru þá aðeins staðsettar eftir umdæmum.
Í yfirliti í apríl kom fram að sauðfjárbóndi í norðausturumdæmi, sem Fljótsdalshérað tilheyrir, hefði haft kindur of þétt og vanfóðrað þær. Stofnunin teldi hann ekki ráða einan við búið og honum því verið tilkynnt að ráðinn yrði vinnumaður út sauðburðinn á hans kostnað. Í samtali við Austurfrétt sagðist Hrönn ekki hafa upplýsingar um hvort þarna væri um að ræða búið sem vörslusvipt var í gær.
Vörslusviptingar eiga sér alltaf aðdraganda
Austurfrétt óskaði í gær eftir afriti af gögnum um búið, meðal annars eftirlitsskýrslum. MAST hafnaði beiðninni og vísaði í niðurstöður úrskurðarnefndar um upplýsingamál í sambærilegum málum um að slík gögn varði einstaklinga og séu því undanþegin upplýsingalögum. Austurfrétt hefur þess vegna ekki í höndunum staðfestingar á nákvæmlega hvaða athugasemdir voru gerðar við búskapinn, hversu oft eða hvaða viðurlögum var beitt.
Í samtali við Austurfrétt sagði Hrönn hins vegar að önnur úrræði teldust fullreynd þegar gripið væri til vörslusviptingar. „Við vinnum út frá lögum um velferð dýra og berum skyldu til að stíga inn í mál þar sem velferð þeirra er ógnað. Á sama tíma þurfum við að fara eftir stjórnsýslulögum þar sem byrjað er á vægasta úrræðinu og gefinn kostur á úrbótum.
Ef það virkar ekki þá þyngjast úrræðin. Vörslusviptingar eru síðasta úrræðið. Þær eiga sér því aðdraganda, hvort sem hann er langur eða skammur.“
Leitast við að halda dýrunum á lífi
Ekki var hægt að fá upplýsingar um aðgerðina, hversu margir smalar hefðu tekið þátt eða hvaðan þeir kæmu. Hrönn svaraði almennt að stofnunin fengi til sín verktaka þegar þörf væri á, eftir eðli hvers máls.
Samkvæmt upplýsingum Austurfréttar tók lögreglan á Austurlandi þátt í aðgerðum í gær. Fyrirspurnum Austurfréttar til lögreglu í gær var vísað til MAST. Hrönn sagðist ekki geta staðfest það en almennt væri lögregla ekki þátttakandi í aðgerðum stofnunarinnar nema talin væri ógn á ferðum við starfsfólk stofnunarinnar. Því væri ekki stofnað í hættu.
Aðspurð segir Hrönn það velta á ástandi búfjárins hvað gert er við það eftir vörslusviptingu. Fyrsti kostur sé að halda dýrunum á lífi og eru þau þá seld til nýrra eigenda. Til þess þarf féð að vera í þokkalegu ástandi, ef það er slæmt er ekki annar kostur en að slátra því. Reynt er að taka ákvörðun þar um sem fyrst því kostnaður við umsjón dýranna fellur á eigandann.