Skip to main content

Von á fyrstu tölum úr Norðausturkjördæmi fyrir miðnætti

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 30. nóv 2024 22:43Uppfært 30. nóv 2024 22:45

Vonast er til að hægt verði að gefa út fyrstu tölur úr Norðausturkjördæmi í Alþingiskosningunum í ár fyrir miðnætti. Það verður gert áður en kjörgögn frá Austurlandi koma á talningarstað.


Yfirkjörstjórn kjördæmisins er með aðsetur í Verkmenntaskólanum á Akureyri og þar verður talið í nótt. Í samtali við Austurfrétt sagði Eva Dís Pálmadóttir, varaformaður kjörstjórnarinnar, að ekki eigi að vera löng bið í fyrstu tölur úr kjördæminu, þær ættu að vera komnar fyrir miðnætti.

Það verður áður en fyrstu kjörgögn frá Austurlandi verða komin á talningarstað. Ágætlega gengur að smala saman gögnum úr Múlaþingi en bið gæti orðið í Fjarðabyggð. Þar lokuðu kjörstaðir klukkan tíu og stemma þarf af gögnin áður en hægt er að fara með þau í Egilsstaði.

En í Fjarðabyggð hefur bætt í vind og því er þungfært milli annarra byggðarlaga en Reyðarfjarðar og Eskifjarðar, sem gæti tafið flutning gagnanna.

Enn er stefnt að því að fljúga með gögnin frá Egilsstöðum til Akureyrar. Á Egilsstöðum hefur vind heldur lægt með kvöldinu.

Eva Dís segir að tölur frá Austurlandi hafi í gegnum tíðina aldrei verið með í fyrstu tölum úr Norðausturkjördæmi. Hvort tafir á flutningi kjörgagna tefji talningu í nótt, eða í versta falli stöðvi hana, verði að koma í ljós.