Skip to main content

Von um að Fjarðarheiði og Fagridalur opnist fljótlega

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 20. jan 2025 11:38Uppfært 20. jan 2025 11:38

Vegagerðin leggur kapp á að opna leiðirnar yfir Fagradal og Fjarðarheiði. Sjúkraflutningur bíður eftir að komast frá Seyðisfirði til Neskaupstaðar. Ekki er útlit fyrir að vegurinn yfir Vatnsskarð til Borgarfjarðar opni í dag.


Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni um klukkan 11:15 í morgun var farið að styttast í að vegurinn yfir Fjarðarheiði myndi opnast. Þar hafa verið erfið skilyrði, mjög þungur snjór.

Á Fagradal er einnig verið að moka og stutt í opnun. Óvissustigi vegna snjóflóðahættu þar var aflýst klukkan 11:30 en veginum var lokað um kvöldmat í gær.

Sjúkrabíll bíður á Seyðisfirði eftir að leiðirnar opnist til að ferja manneskju á Umdæmissjúkrahús Austurlands í Neskaupstað.

Búið er að opna veginn frá Norðfirði inn Fannardal. Beðið var með mokstur í morgun þar til sást til fjalla til að tryggja að ekki væri snjóflóðahætta.

Búið er opna frá Reyðarfirði suður til Hornafjarðar. Á einhverjum stöðum er einbeitt. Stórt snjóflóð féll í Færivallaskriðum milli Breiðdalsvíkur og Stöðvarfjarðar seinni partinn í gær. Í Berufirði liggur rafmagnslína niðri þannig varasamt er fyrir stóra bíla að fara um.

Á Fljótsdalshéraði eru helstu leiðir færar að minnsta kosti jeppum. Þar sem skefur hefur dregið í skafla en rutt var víðast hvar í morgun. Ekki er útlit fyrir að hægt verði að opna yfir Vatnsskarð til Borgarfjarðar í dag.

Búið er að moka frá Mývatni að Möðrudal og verið að skoða ástand vegarins upp úr Jökuldal. Gert er ráð fyrir að fara í mokstur þar um og yfir Vopnafjarðarheiði fljótlega.

Mynd úr safni.