Vonast eftir fjölbreyttu og ábatasömu samstarfi við Múlaþing

Rektor University of Highlands and Island í Skotlandi (UHI) segist spenntur fyrir möguleikum á samstarfi við Múlaþing í kjölfar viljayfirlýsingar sem skólinn og sveitarfélagið gerðu um daginn. Hann segir það gefa skólanum á að gera nemendahóp sinn enn fjölbreyttari.

„Það er ýmislegt í þessu fyrir okkur: Samstarfið opnar nýja alþjóðlega möguleika fyrir okkur auk þess að geta gert nemendahóp okkar fjölbreyttari. Þannig hjálpum við nýjum nemendum til að nýta getu sína til fulls sem undirbýr þá fyrir heim sem er í stöðugri þróun og tryggir að þeir taki þátt í að efla samfélag sitt og hagkerfi,“ segir prófessor Todd Walker, rektor UHI, í samtali við Austurfrétt.

UHI og Múlaþing skrifuðu í síðasta mánuði undir viljayfirlýsingu um samstarf á sviði háskólamála. Skólinn, sem verður tíu ára í ár, starfar í skosku Hálöndunum og eyjunum með 13 rannsókna- og námsver auk fjölda minni námsvera.

„Orðspor skólans byggir á nýstárlegri nálgun okkar á kennslu og einstökum rannsóknum og námsskrá sem íbúar, náttúra, hagkerfi, menning og arfleið starfssvæðisins hefur sett mark sitt á. Við viljum víkka þessar grunnstoðir okkar út til vina okkar í Múlaþingi í gegnum menntun og aðra framþróun á þeim sviðum sem skipta samfélagið þar máli.“

Hann segir samfélögin tvö eiga ýmislegt sameiginlegt. „Ferðamennska, fiskeldi og landbúnaður eru undirstöður hagkerfis beggja svæðanna. Austurland skortir líka tækifæri til háskólanáms líkt og okkar svæði áður en UHI var stofnaður.

Það leiðir aftur til þess að fólk flyst í burtu til að fara í nám, ungt fólk kemur ekki aftur og atvinnutækifæri eru fábreyttari, einkum fyrir menntaðra fólk. Við viljum aðstoða vini okkar á Austurlandi í gegnum menntun og rannsóknir í von um að það styðji þá við að efla möguleika svæðisins.

Í gegnum þetta samstarf vonumst við til að koma á ævarandi tengslum milli íbúa og samfélaga á Austurlandi og í Hálöndunum og eyjunum,“ segir Todd Walker.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.