Vonast til að geta opnað þjóðveginn austanlands að fullu síðar í dag
Hart er unnið að því af hálfu Vegagerðarinnar að lagfæra verulegar skemmdir sem urðu á kafla þjóðvegarins austan- og suðaustanlands í óveðrinu og vatnavöxtunum sem því fylgdu í gær. Vonir standa til að það takist að opna veginn að fullu síðdegis.
Vandræðin stafa fyrst og fremst af vatnavöxtum sem óveðrinu fylgdu og það á allnokkrum stöðum en þessu mikilvægi samgönguvegur fór í sundur á allnokkrum stöðum vegna þess. Samhliða því féllu einhverjar skriður og grjót á veginn
Taka þurfti veginn beinlínis í sundur við Jökulsá á Lóni skammt frá Höfn í Hornafirði þar sem mikill vatnselgur hafði myndast fyrir ofan vegstæðið og þar skemmdir töluverðar á varnargörðum en bráðabrigðaviðgerð stendur yfir og góðar líkur á að þar takist að koma umferð á á nýjan leik síðdegis í dag.
Staðan ívið verri því austar er farið á vegkaflanum að Djúpavogi þar sem skemmdir eru á allnokkrum köflum. Vegspottinn á milli Djúpavogs og Breiðdalsvíkur lokaðist tímabundið vegna þessa en var opnaður að nýju fyrir hádegi en er þó einungis að mestu fær fjórhjóladrifnum bifreiðum. Það stendur einnig til bóta þegar líða fer á daginn.
Snjókoma og rigning hjálpar ekki til
Gunnlaugur Rúnar Sigurðsson, yfirverkstjóri Vegagerðinnar á Höfn, er bjartsýnn á að þrátt fyrir erfiðleika, eins og mikla snjókomu í morgun og rigningu víða nú, takist að opna veginn að fullu síðar í dag.
„Við vinnum að því að loka skarðinu sem við bjuggum til við Jökulsá í Lóni og við stefnum að því að það hafist af í dag en það er reyndar búið að snjóa hérna töluvert sem gerir okkur aðeins erfiðara fyrir. Hvað varðar veginn að Djúpavogi þá erum við nú að flytja efni og rör frá Reyðarfirði í þessum töluðu til að setja í veginn þar og þegar þau koma þá förum við beint í að ganga frá vegi aftur. Það er meira en að segja því okkur sýnist þurfa allt að 300 rúmmetra af efni til að setja í veginn. Það er tæknilega svona bráðabrigðafært fyrir smærri bíla en færið er alls ekki gott. Ég er að vona að okkur takist að koma veginum þá leiðina í viðunandi horf síðar í dag.“
Gunnlaugur ítrekar þó að þótt takist að opna þjóðvegsleiðina eru skemmdir það miklar að líkast til þurfi að bíða vors til að lagfæra veginn allan á viðunandi hátt. Mikið verk sé framundan þó hægt verði að veita umferð á veginn að nýju.
Lítil áhrif á flutninga
Samkvæmt heimildum Austurfréttar frá flutningafyrirtækjunum Eimskip og Samskip sem flytja mikilvægar vistir og verðmæti til og frá landshlutanum hefur lokun vegarins hingað til ekki haft alvarlegt áhrif. Tveimur bílum þurfti að snúa við á suðurleiðinni þegar fregnaðist að vegurinn væri í sundur en aðrir bílar hafa farið norðurleiðina í staðinn og gengur það allt vel.
Dæmi um hve flókið getur verið að eiga við það þegar megin samgönguæð þjóðarinnar fer í sundur á kafla en myndin var tekin í dag. Mynd Þorleifur Olsen