Skip to main content

Vonast til að rafmagn komist aftur í kvöld í sunnanverðum Reyðarfirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. feb 2025 18:46Uppfært 10. feb 2025 15:28

Tvær rafmagnsbilanir hafa komið upp í dag á Austfjörðum, sitt hvoru megin við Vattarnes yst í sunnanverðum Reyðarfirði. Vonast er að rafmagn komist á allt svæðið í kvöld.


Samkvæmt tilkynningu Rarik fór rafmagnið af frá Kolmúla að Berunesi upp úr klukkan níu í morgun. Þegar verið var að leita að biluninni fór rafmagnið einnig af í Fáskrúðsfirði, frá þorpinu á Búðum út að Vattarnesi.

Flestir viðskiptavinir eru komnir með rafmagn, þó eru enn nokkrir eftir milli Kolmúla og Grímuvita. Vonast er til að rafmagn komist þar aftur á í kvöld.

Bálhvasst hefur verið úti á Vattarnesi í dag, reglulegar hviður upp á 40 m/s. Þar tók heldur að lægja eftir klukkan 17.