Skip to main content

Vont veður og bilaður bíll tafið sorphirðu vikunnar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 08. jan 2025 17:32Uppfært 08. jan 2025 17:34

Áform um að vinna upp tafir, sem orðið hafa síðan í haust á sorphirðu í Múlaþingi, hafa ekki gengið sem skyldi. Vont veður á mánudag og bilun í sorphirðubíl hafa sett strik í reikninginn. Unnið verður á laugardag til að vinna upp tafirnar.


Svigrúm átti að vera í sorphirðudagatali nýs árs til að vinna upp tafirnar en strax í síðustu viku kom babb í bátinn þegar aðalbíll sorphirðuverktakans bilaði. Sú bilun hefur staðið fram í þessa viku en varabíll, sem kom austur í síðustu viku, hefur verið nýttur.

Í síðustu viku átti að taka sorp á Djúpavogi en það frestaðist vegna bilunarinnar. Það frestaðist svo aftur á mánudag vegna veðurs. Samkvæmt upplýsingum frá Múlaþingi er núna vonast til að öll sorphirða á Djúpavogi klárist í síðasta lagi á laugardag.

Á Seyðisfirði gekk áætlun um að taka pappír og plast síðasta föstudag upp. Áætlanir um að sækja blandaðan og lífrænan úrgang hafa ekki gengið eftir, það var síðast gert í lok nóvember og átti að gerast, samkvæmt eldra sorphirðudagatali, þann 27. desember. En það á að gerast á morgun, fimmtudag.

Mestu tafirnar hafa verið í dreifbýli á Fljótsdalshéraði. Í gær og í dag var farið í Skriðdal og Velli auk Efra-Jökuldals og Hrafnkelsdals til að sækja blandaðan og lífrænan úrgang. Á sumum bæjum hafði það ekki verið gert síðan í kringum 22. október. Vel virðist hafa gengið því einnig var farið í Jökulsárhlíð og Hróarstungu í dag.

Fell og Fljótsdalur hafa fylgst að. Þar hafa pappi og plast ekki verið tekin síðan 30. október. Til stendur að fara í slíka ferð þangað á föstudag.

Samkvæmt dagatali átti að taka blandaðan og lífrænan úrgang á Egilsstöðum og í Fellabæ í vikunni. Því hefur seinkað en vonast er til að sú hirða klárist í síðasta lagi á laugardag.