Vont veður og bilaður bíll tafið sorphirðu vikunnar
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 08. jan 2025 17:32 • Uppfært 08. jan 2025 17:34
Áform um að vinna upp tafir, sem orðið hafa síðan í haust á sorphirðu í Múlaþingi, hafa ekki gengið sem skyldi. Vont veður á mánudag og bilun í sorphirðubíl hafa sett strik í reikninginn. Unnið verður á laugardag til að vinna upp tafirnar.
Svigrúm átti að vera í sorphirðudagatali nýs árs til að vinna upp tafirnar en strax í síðustu viku kom babb í bátinn þegar aðalbíll sorphirðuverktakans bilaði. Sú bilun hefur staðið fram í þessa viku en varabíll, sem kom austur í síðustu viku, hefur verið nýttur.
Í síðustu viku átti að taka sorp á Djúpavogi en það frestaðist vegna bilunarinnar. Það frestaðist svo aftur á mánudag vegna veðurs. Samkvæmt upplýsingum frá Múlaþingi er núna vonast til að öll sorphirða á Djúpavogi klárist í síðasta lagi á laugardag.
Á Seyðisfirði gekk áætlun um að taka pappír og plast síðasta föstudag upp. Áætlanir um að sækja blandaðan og lífrænan úrgang hafa ekki gengið eftir, það var síðast gert í lok nóvember og átti að gerast, samkvæmt eldra sorphirðudagatali, þann 27. desember. En það á að gerast á morgun, fimmtudag.
Mestu tafirnar hafa verið í dreifbýli á Fljótsdalshéraði. Í gær og í dag var farið í Skriðdal og Velli auk Efra-Jökuldals og Hrafnkelsdals til að sækja blandaðan og lífrænan úrgang. Á sumum bæjum hafði það ekki verið gert síðan í kringum 22. október. Vel virðist hafa gengið því einnig var farið í Jökulsárhlíð og Hróarstungu í dag.
Fell og Fljótsdalur hafa fylgst að. Þar hafa pappi og plast ekki verið tekin síðan 30. október. Til stendur að fara í slíka ferð þangað á föstudag.
Samkvæmt dagatali átti að taka blandaðan og lífrænan úrgang á Egilsstöðum og í Fellabæ í vikunni. Því hefur seinkað en vonast er til að sú hirða klárist í síðasta lagi á laugardag.