Vopnafjarðarhreppur hættir við að höfða dómsmál gegn Stapa lífeyrissjóði
Sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps hefur ákveðið að falla frá fyrirhugaðri málsókn á hendur Stapa lífeyrissjóði vegna uppgjörs á vangreiddum lífeyrisgreiðslum á árunum 2005-2016. Málinu er þar með lokið af hálfu sveitarfélagsins.Það var haustið 2016 sem í ljós kom að sveitarfélagið hafði frá árinu 2005 aðeins greitt 8% í stað 11,5% í mótframlag vegna starfsmanna sem voru hjá Stapa. Greiðslurnar voru lagfærðar eftir að vitleysan kom í ljós en deilur upphófust um hvernig standa ætti að uppgjöri vegna hinna vangoldnu greiðsla sem um leið skertu lífeyrisréttindi starfsfólksins.
Stapi krafðist þess að hreppurinn greiddi höfuðstól hins vangoldna mótframlags ásamt ávöxtunarkröfu fyrir allt tímabilið, upp á rúmar 76,7 milljónir króna. Sumarið 2019 ákvað meirihluti sveitarstjórnar að greiða allan höfuðstólinn auk þeirrar ávöxtunar sem ekki var fyrnd, sem náði fjögur ár aftur í tímann.
Slík ákvörðun hefði leitt til þess að réttindi starfsmannanna hefðu skerst, þar lífeyrissjóðurinn getur ekki bætt einum félaga upp án þess að skerða annan. Ákvörðun hreppsins var því mótmælt og náði óánægjan hápunkti á íbúafundi á Vopnafirði í lok september í fyrra.
Eftir hann breytti sveitarfélagið afstöðu sinni og greiddi kröfu Stapa að fullu en áskildi sér um leið rétt til að höfða dómsmál og láta reyna á ábyrgð lífeyrissjóðsins. Sveitarstjórn ákvað á fundi sínum síðasta fimmtudag að falla frá dómsmálinu eftir að hafa farið yfir minnisblað frá Magna lögmönnum.
Lögfræðilega tækt að komast hjá hluta kröfunnar
Í minnisblaðinu kemur fram að ekki sé ljóst hvernig mistökin hafi átt sér stað í fyrstu en óumdeilt sé að of lágt mótframlag hafi verið greitt. Þar er því haldið fram að báðir aðilar beri ábyrgð. Annars vegar sé greiðsluskylda sveitarfélagsins gagnvart lögum og kjarasamningum skýr, hins vegar beri Stapi ábyrgð á að fylgjast með að rétt sé greitt til sjóðsins.
Mat Magna á stöðunni er því að lögfræðileg rök séu fyrir að sjóðurinn beri „að minnsta kosti hluta ábyrgðarinnar.“ Þá hafi verið út frá reglum um fyrningu verið „lögfræðilega tækt að komast hjá störum hluta kröfunnar.“ Út frá þessu hafi verið niðurstaðan verið ákveðin sumarið 2019.
Ljóst er þó á minnisblaðinu að málarekstur fyrir dómum hefði verið snúinn. Ekkert fordæmi er í íslenskum rétti fyrir sambærilegu máli og þótt Magna telji „ágæt lögfræðileg rök“ fyrir að Stapi beri hluta ábyrgðarinnar. Sjóðurinn hefði til dæmis getað borið fyrir sig reglum um fyrningu, rétt eins og sveitarfélagið. Frumábyrgð málsins var alltaf hreppsins, þótt rök væru fyrir að deila henni.
Fram kemur að skoðað hafi verið að láta reyna á annað upphaf fyrningarfrests og fundað hafi verið um það með Stapa. Kröfubréf var síðan sent í febrúar á þessu ári.
Enginn áhugi hjá sambandi sveitarfélaga
Í minnisblaðinu er bent á að þótt dómari myndi fallast á að Stapi bæri ábyrgð yrði það aldrei nema að hluta. Þá yrði erfitt að sannfæra dómara um að færa til upphafsdag fyrningartímabils sem aftur myndi draga verulega úr líkum á að dómsmál skilaði sveitarfélaginu verulegum fjárhæðum.
Vopnafjarðarhreppur kannaði hvort Samband íslenskra sveitarfélaga væri til í að styðja við málareksturinn þar sem um væri að ræða mikilvægt grundvallarmál fyrir sveitarfélög. Fyrir því reyndist „enginn áhugi.“
Á þessum forsendum ákvað sveitarstjórnin því að láta ekki reyna á dómsmál og segir í niðurlagi bókunar frá fundinum að hún telji málinu nú að fullu lokið.
Frá íbúafundi um málið í félagsheimilinu Vopnafirði. Í minnisblaði Magna lögmanna segir að þar hafi óánægja með afgreiðslu hreppsnefndar náð hámarki.