Skip to main content

Vopnafjarðarhreppur tekur yfir daglegan rekstur Bustarfells

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 12. des 2024 14:14Uppfært 13. des 2024 09:43

Ákveðið hefur verið að Vopnafjarðarhreppur sjálfur taki yfir daglegan rekstur hins merka safns Bustarfells á nýju ári en með þeim hætti verði hægt að skapa enn öflugra safn og aðdráttarafl öllu samfélaginu til heilla eftirleiðis.

Bustarfell er án alls efa eitt merkasta safn Austurlands og þótt víðar væri leitað enda einhver fegursti og best varðveitti torfbær landsins.

Húsakosturinn sjálfur hefur lengi verið í umsjón Þjóðminjasafnsins meðan allur safnkostur hefur verið í eigu Vopnafjarðarhrepps um langt skeið. Reksturinn að mestu verið í höndum Þjóðminjasafnsins með miklu og góðu fulltingi afkomenda Burstarfellsættarinnar síðustu áratugina. Nú síðast Eyþóri Braga Bragasyni sem séð hefur um starf safnstjóra síðastliðinn fimm ár eftir að foreldrar hans sinntu því starfi marga áratugi aftur í tímann með góðum árangri.

Að sögn Valdimars O. Hermannssonar, sveitarstjóra, hefur lengi staðið vilji af hálfu sveitarfélagsins að rétta hjálparhönd með rekstur safnsins sem hefur á köflum reynst erfiður og það verið gert með sérstökum fjárframlögum gegnum tíðina.

„Þetta kemur til af því að hreppurinn á safnið sem slíkt þó Þjóðminjasafnið ráði yfir húsakostinum. Fjölskyldan á Burstarfelli hefur sinnt þessu öllu með miklum myndarbrag og áratugaskeið. Nú hafa ákveðin kynslóðaskipti átt sér stað því eldra fólkið vill fara að snúa sér að öðru og sonurinn Eyþór Bragi, sem séð hefur um flesta hluti síðustu árin vill gjarnan meira frjálsræði til að sinna öðrum málum. Þannig að það legið fyrir í nokkurn tíma að hreppurinn kæmi að þessu með sterkari hætti. Hugmyndin er að Eyþór verði áfram staðarhaldari eins og verið hefur en losni við hefðbundinn daglegan rekstur sem hreppurinn mun eftirleiðis taka að sér.“

Sjálfur sér Valdimar og reyndar nefndir hreppsins góð og mikil tækifæri í að sinna rekstri safnsins í góðri samvinnu við Eyþór Braga sem áfram verður staðarhaldarinn. Með þessum hætti geti hreppurinn sinnt starfsmannahaldi og bókhaldi öllu og rekstrinum í heild sem gefi góð tækifæri til að tengja safnið enn betur allri markaðssetningu ferðaþjónustu í hreppnum en ekki síður byggja safnið upp enn frekar með sterkari bakhjörlum.