Skip to main content
Ein mikilvæg formlega vottun á næsta leyti en betur skal gera

Vopnafjörður verður Barnvænt sveitarfélag fyrir áramótin

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 29. okt 2025 14:44Uppfært 30. okt 2025 09:52

Um rúmlega þriggja ára skeið hefur verið unnið að því innan Vopnafjarðarhrepps að uppfylla allar þær kröfur sem þarf til að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og fá þar með vottun sem Barnvænt sveitarfélag. Sú vottun gæti fengist strax í næsta mánuði.

Það staðfestir sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps, Valdimar O. Hermannsson, við Austurfrétt en til að hljóta slíka vottun þurfa viðkomandi sveitarfélög að tryggja að raddir barna heyrist hátt og skýrt í stjórnsýslu allri og starfsemi sveitarfélagsins og ekki síður að réttindi þeirra séu virt í einu og öllu.

Lítt þýðir að sitja á hækjum sér þó vottun þessi fáist því hún gildir einungis í þrjú ár í senn áður en sækja þarf aftur um sömu vottun og helst þarf framþróun að hafa orðið til að vottunin haldi sér.

Að sögn Valdimars var ferlið komið það langt að hreppurinn þurfti aðeins að skila af sér lokaskýrslu um hvernig Vopnfirðingar hygðust verða við þeim kröfum sem gerðar eru til að fá formlega blessun sem Barnvænt sveitarfélag.

„Sú skýrsla er komin til þeirra og vonir standa til að við getum fengið þessa vottun núna strax í nóvember eða allavega á þessu ári. Ég á von á að þessi lokaskýrsla sé í yfirlestri hjá [UNICEF] og það er lokaskrefið í öllu þessu ferli.“

Vottun um Barnvænt sveitarfélag er ekki sú eina sem hreppurinn sækist eftir. Valdimar segir stefnt að því um leið og vottun sú verður staðfest að sækja um vottun sem Heilsueflandi samfélag. Með þátttöku þar einsetja sveitarfélög sér að vinna markvisst lýðheilsustarf þar sem heilsa og líðan allra íbúa er í fyrirrúmi í stefnumótun og aðgerðum á öllum sviðum.

„Við ætlum okkur að verða okkur úti um þá vottun líka og förum í það um leið og þessari vegferð að Barnvænu sveitarfélagi er lokið farsællega.“