Yfirtaka HEF-veitna á fjarvarmaveitu Seyðfirðinga í farvatninu
Viðræður um yfirtöku HEF-veitna á fjarvarmaveitu Seyðisfjarðar úr höndum RARIK hafa staðið yfir síðustu vikurnar og gæla menn við að samkomulag náist fyrir áramótin.
Múlaþing hefur um margra mánaða skeið undirbúið að taka við rekstri veitunnar en RARIK sem rekið hefur hana allar götur frá árinu 1981 hefur frá árinu 2017 lýst yfir að vilja hætta þeim rekstri.
Meginástæðan fyrir þeirri ákvörðun RARIK verið að raforkukostnaður veitunnar hefur hækkað um 50% frá því hún tók starfa og vegna raforkuskerðinga hefur á köflum þurft að keyra veituna á olíu sem er enn dýrari.
Þau tímamót urðu þó fyrir fáum vikum að RARIK samdi við Landsvirkjun um kaup á forgangsorku á viðunandi kjörum og það var sá samningur sem leiddi Múlaþing að borðinu í kjölfarið enda breytast rekstrarforsendur veitunnar verulega með tryggri orku og aldrei kemur til skerðinga.
Aðalsteinn Þórhallsson, framkvæmdastjóri HEF-veitna, segir að gangi samningar eftir þá fylgi nýr raforkukaupasamningur RARIK með veitunni og það forsenda þess að aðilarnir hófu viðræður strax í kjölfarið.
„Vinna er á fullri ferð við mögulegt framsal og skoðun tækni- og viðskiptahliðar framsalsins. Ljóst er að verkefnið er nokkuð snúið en stefnt að því að ljúka því fyrir árslok.“
Aðalsteinn staðfestir einnig að nýlegar vísbendingar hafi komið fram um að hugsanlega megi finna heitt vatn í jörðu í Seyðisfirði. Ekki verði farið af alvöru í frekari rannsóknir á því fyrr en búið verður að ganga frá framsali veitunnar til HEF-veitna.