Orkumálinn 2024

„Ýmislegt á ferðinni í bænum“

Björgunarsveitin Gerpir í Neskaupstað hefur sinnt ýmsum verkefnum í morgun enda aftakaveður í bænum. Rafmagnslaust hefur verið í sunnanverðum Fáskrúðsfirði frá því klukkan átta í morgun.

„Við höfum verið á ferðinni með 10-15 manns síðan um klukkan átta í morgun. Það er ýmislegt á ferðinni enda snarvitlaust veður í bænum,“ segir Sveinn Halldór Oddsson Zoega í svæðisstjórn björgunarsveitanna á Austurlandi en hann býr í Neskaupstað.

Hann segir garðkofa, ruslatunnur og ýmsa lausamuni vera meðal þess sem fokið hafi auk þess sem rúða hafi brotnað í Nesskóla. Eins mun jólatré Fjarðabyggðar hafa fokið á hliðina. Á Seyðisfirði barst útkall vegna brotinnar rúðu í íbúðarhúsi. Björgunarsveitarfólk og viðbragðsaðilar reyna að festa það sem virðist vera að losna.

„Hér gengur stórsjór langt upp á land,“ segir hann um aðstæður. Hann bætir við að í Neskaupstað sé mjög byljótt, um 20 metra meðalvindhraði sem tvöfaldist svo skyndilega í hviðum. Slíkar aðstæður skapi mun meira álag á mannvirki heldur en jafn stormur.

Rafmagnslaust varð í Breiðdal í skamman tíman um klukkan hálfa átta í morgun vegna bilunar milli Breiðdals og Teigarhorns. Breiðdalur fær nú rafmagn frá Stöðvarfirði í staðinn.

Í sunnanverðum Fáskrúðsfirði hefur verið rafmagnslaust frá því um klukkan átta í morgun. Bilunin hefur ekki fundist þannig að til stendur að slá línunni inn nú á ellefta tímanum. Þá kemur frekar í ljós hvernig ástandið er. Upplýsingar um stöðuna verða uppfærðar á www.rarik.is/tilkynningar

Truflanir frá Prestbakkalínu höfðu áhrif á Hornafirði í nótt, meðal annars á hitaveituna á Höfn. Hún á nú að vera komin í jafnvægi.

Samkvæmt tölum Veðurstofunnar mældist mesti vindhraði á landinu í dag 40,1 m/s í hviðu á Vatnsskarði eystra. Mælir Veðurstofunnar þar sýnir 50 m/s hviðu klukkan 10:30. Appelsínugul viðvörun er í gildi fyrir Austurland og Austfirði til klukkan 18:00 í kvöld.

Upp úr því tekur aðeins að lægja, heldur fyrr inn til landsins, en ró virðist ekki komast á fyrr en um miðnætti. Vegurinn yfir Vatnsskarð er ófær og lokað yfir Möðrudalsöræfi, Vopnafjarðarheiði og Öxi.

Mynd úr safni.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.