Norðfjarðargöng

Norðfjarðargöng: Læti frá sprengingum fyrstu mánuðina

ibuafundur nordfjardargong geÍbúar á Eskifirði mega eiga von á nokkru ónæði vegna framkvæmda við ný Norðfjarðargöng, sérstaklega fyrstu tvo mánuðina. Áhrifin verða minni Norðfjarðarmegin enda framkvæmdasvæðið fjær þéttbýlinu.

Þetta var meðal þess sem fram kom á kynningarfundi um framkvæmdirnar sem haldinn var á Eskifirði í gær. Von er á að aðalverktakinn fari að koma sér fyrir á næstu dögum en gangagröfturinn sjálfur Eskifjarðar megin hefst í nóvember.

„Það verða læti frá sprengingum í 1-2 mánuði og sennilega heyrast dynkir frá sprengingum eitthvað lengur,“ sagði Gísli Eiríksson frá Vegagerðinni. Sprengt verður tvisvar á sólarhring.

Helstu óþægindi sem íbúar eiga von á eru hávaði frá umferð allan sólarhringinn á framkvæmdatímanum, rykmengun frá efnismengun og sjónmengun. Skjólgarður á milli framkvæmdasvæðisins og þéttbýlisins á Eskifirði verður gerður í vor.

Með nýjum göngum verður þjóðvegurinn færður rétt inn fyrir Eskifjörð. Hesthúsasvæði bæjarins hefur verið flutt út fyrir bæinn og varavatnsbólið flutt innar. Þá fær Golfklúbbur Byggðarholts skaðabætur en vegurinn fer að hluta yfir núverandi svæði klúbbsins.

Ný brú verður byggð á Eskifjarðará sem á að vera tilbúin árið 2015. Gangnamuninn á að vera tilbúinn um svipað leiti.

Framkvæmdasvæðið sjálft verður lokað en slóðar liggja fyrir neðan það fyrir þá sem erindi eiga inn í dal. Malarvegir sem notaðir verða við framkvæmdina verða rykbundnir til að lágmarka svifryk.

Framkvæmdir við göngin sjálf Norðfjarðarmegin hefjast í janúar. Í sumar hefur verið unnið að smíði nýrrar brú yfir Norðfjarðará. Óþægindi íbúa af framkvæmdunum verða minni þeim megin enda vinnusvæðið töluvert frá þéttbýlinu. Nýju göngin eiga síðan að vera tilbúin 1. september 2017.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.