Af sjónum inn í göng: Minni veltingur í göngunum
Kristinn S. Gylfason er eini Íslendingurinn sem starfað hefur undir merkjum tékkneska verktakafyrirtækisins Metrostav við gerð Norðfjarðarganga en hann vann einnig hjá fyrirtækinu í Héðinsfjarðargöngum. Tilviljun varð til þess að hann fór að starfa við jarðgangagerð.
„Ég var búinn að vera vélstjóri í 25 ár á uppsjávarveiðiskipi þegar ég sá auglýst eftir viðgerðarmanni í tveggja vikna gömlu Morgunblaði sem ég var að skoða úti á sjó.
Ég hafði gælt við að fá eitthvað við mitt hæfi í landi og samdi við skipstjórann um að fá að vera laus ef ég fengi starfið,“ sagði Kristinn í samtali við vikublaðið Austurgluggann.
Kunni ekkert fyrst
Það voru töluverð viðbrigði að takast á við borana í staðinn fyrir skipsvélarnar. „Ég var búinn að vera í svona 2-3 vikur þegar ég hugsaði hvern andskotann ég væri að gera. Ég vissi ekkert.“
Kristinn ber ábyrgð á viðhaldi bora og þeirra tækja sem Metrostav notar. Honum til halds og trausts eru síðan fleiri viðgerðarmenn. Til dæmis voru viðgerðarstjórar til taks við sinn hvorn gangamunna meðan borað var. „Ég stend ekki einn en það sem ég vil að sé gert er yfirleitt gert.“
Hann segir samskiptin við yfirmennina á ensku ganga vel en undirmennirnir eru ekki jafn sleipir í henni. Kristinn hefur heldur ekki lært tékkneskuna, sem þykir nokkuð flókið tungumál. „Ég tala hana ekki en veit oftast hvað er í gangi. Ég veit hvað er í gangi þegar þeir segja mér hvað er bilað.“
Veltur ekki í göngunum
Eins og á sjónum er gengið strax í að laga það sem er bilað. „Ef borarnir eða önnur tæki í göngunum bila þá er það eins og að vera með óklárt á síðunni, þá eru allir ræstir út.
Maður þarf að vera tilbúinn að fara í það sem þarf að gera, fara eins langt og maður kemst í að redda, til dæmis að hringja á sunnudögum ef eitthvað bilar. Það hefur ekki verið vandamál, við höfum fengið mjög góða þjónustu hjá fyrirtækjum hér fyrir austan,“ segir hann.
„Það er heldur meiri drulla inni í göngunum en á sjónum. Á móti þá veltur ekkert sem er kostur,“ bætir hann við.
Hringja þegar þeir segjast ætla að hringja
Hann lætur vel af því að vinna fyrir tékkneska fyrirtækið. „Ef skrifstofumennirnir segjast ætla að athuga eitthvað fyrir mann og hringja aftur klukkan þrjú þá hringja þeir klukkan þrjú, ekki viku seinna eins og Íslendingar. Það stenst allt sem þeir segja. Ég get næstum stillt klukkuna eftir því hvenær launin eru borguð.
Þeir kunna sitt fag í þessu. Þeir eru kröfuharðir og vinnubrögðin eru öguð, sem á sinn þátt í hvað þetta hefur gengið fínt en þeir eru líka gífurlega þakklátir ef maður gerir eitthvað fyrir þá.“