Skip to main content

Blak: Þróttur efstur í deildinni

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 17. nóv 2015 10:34Uppfært 17. nóv 2015 12:42

blak throttur ka kvk 14032015 0051 webÞróttur leiðir í úrvalsdeild kvenna eftir að hafa unnið Fylki í hörkuleik á Norðfirði á föstudagskvöld. Höttur er enn án stiga í úrvalsdeild karla í körfuknattleik.


Segja má að Þróttarstelpur hafi verið komnar með bakið upp við vegginn eftir að hafa tapað tveimur fyrstu hrinunum, 22-25 og 17-25.

Líklega gerðu þær sig sekar um að vera værukærar því þær leiddu í fyrstu hrinu upp í 20-19 og höfðu meðal annars verið yfir 20-15 fyrir skömmu áður.

Leikhlé dugði ekki til að koma skikkan á leik liðsins og komst Fylkir yfir í fyrsta sinn í hrinunni, utan þess að hafa skorað fyrsta stigið, í 21-22.

Eftir að staðan hafði verið 13-12 í annarri hrinu hrökk allt í baklás hjá Þrótti og staðan breyttist í 14-21.

Í síðustu þremur hrinunum átti Árbæjarliðið aldrei séns. Þróttur vann þriðju hrinu 25-14, fjórðu 25-13 og hafði yfirburði í oddahrinunni 15-3.

Þróttur í efsta sæti deildarinnar með 10 stig úr 4 leikjum en hefur leikið leik meira en HK og Afturelding sem koma í næstu sætum með 9 stig.

Höttur tapaði fyrir Tindastóli í úrvalsdeild karla í körfuknattleik 80-75 en liðin léku á Sauðárkróki á fimmtudagskvöld. Afleitur annar leikhluti varð Hattarmönnum að falli þar sem staðan var 42-30 í hálfleik.

Tobin Carberrry var stigahæstur Hattarmanna með 28 stig en Mirko Stefán Virijevic átti líka ágætan dag, skoraði 21 stig og tók 10 fráköst.