„Allir hafa gott af því að fara einn til tvo túra á sjó“
„Mig hefur alltaf langað til þess að prófa að fara á sjó en sjómennskan er í ættinni. Svo er ég að taka mér árs pásu frá háskólanum, vantaði vinnu og langaði að prófa eitthvað nýtt,“ segir Lísa Margrét Rúnarsdóttir, sem hefur verið háseti á frystitogaranum Blængi NK frá Norðfirði.
Lísa Margrét er Vestmannaeyingur en hefur dvalið víða. Hún hefur lokið tveggja ára námi í hjúkrunarfræðum við Háskólann á Akureyri en stefnir á læknisfræðina. Hún er tvítug að aldri og er fyrsta konan í áhöfn Blængs eftir að Síldarvinnslan eignaðist skipið.
„Hvað ertu eiginlega búin að koma þér út í, Lísa?“
Lísa Margrét er háseti um borð, sinnir öllum störfum í vinnslunni, auk þess að vera fjórði maður á dekki og hægri hönd netamannsins.“
Aðspurð um hvað kom henni helst á óvart við starfið segir hún: „Hvað þetta er bæði andlega og líkamlega erfitt. Eftir tvær vikur á stanslausum vöktum, átta tíma í vinnu og átta tíma í hvíld, er mann farið að verkja alls staðar. Það verður erfiðara að vakna fyrir hverja vakt og halda hausnum í jafnvægi og kannski enn erfiðara að hugsa til þess að það enn séu þrjár vikur eftir. Fyrsta nóttin um borð var mjög erfið. Þá var hörkubræla og ég kastaðist til í kojunni en svo byrjaði vaktin klukkan fjögur. Þegar vaktin var að byrja spurði ég sjálfa mig: Hvað ertu eiginlega búin að koma þér út í, Lísa? Síðan vandist þetta og mér þótti gaman að vinnunni.“
„Mér þótti svo langur túr andlega erfiður“
Túrarnir eru allt upp í 40 daga. „Mér þótti svo langur túr andlega erfiður. Það skiptir hins vegar öllu máli að það ríki góður andi um borð og það er gott andrúmsloft um borð í Blængi. Strákarnir tóku mjög vel á móti mér og ég myndi segja að nýliðafræðslan um borð sé til fyrirmyndar. Strákarnir tala oft um áhöfnina sem fjölskyldu og ég er farin að skilja það núna. Ég dáist að þeim fyrir vinnuna sem þeir vinna og þeir eiga allt hrós skilið. Sjómenn eru hetjur.
Ég var frá upphafi staðráðin í að standa mig vel og ég held ég hafi gert það. Mér var til dæmis sagt að ég hefði aldrei fengið að fara og starfa uppi á dekki ef ég hefði ekki staðið mig í vinnslunni. Ég hefði heldur ekki fengið að fara annan túr. Þetta hefur styrkt mig rosalega mikið og ég hef lært helling, ekki bara um sjómennskuna heldur sjálfa mig líka. Ég trúi því innilega að fyrst ég gat þetta geti ég allt.“
Þroskast mikið um borð
Hver telur Lísa Margrét ástæðuna fyrir því að konur séu í svo miklum minnihluta á sjó? „Mjög góð spurning. Lengst af hefur sjómennskan verið karlastarf, líkt og hjúkrun kvennastarf. Það ætti ekki að skipta neinu máli hvort þú sért karlmaður né kvenmaður á öðru hvoru sviðinu, bara meginmáli hvar áhugasviðið liggur. Eftir mína reynslu sé ég að allir hafa gott af því að fara einn til tvo túra á sjó. Ég sjálf hef þroskast virkilega mikið á mínum tíma hér um borð.“
Ljósmynd: SVN