Skip to main content

Alltaf með eitthvað á prjónunum

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 22. júl 2022 10:50Uppfært 22. júl 2022 10:50

Á regnbogalituðum bekk við skrautmálaðan bílskúr á Seyðisfirði situr Vigdís Helga Jónsdóttir á sumardögum og prjónar eða málar myndir. Í skúrnum, sem skartar Stjána bláa og Ástríki, selur hún handverk sitt, leirverk, prjón og málverk.


„Ég flutti hingað 1989 og fór að vinna í frystihúsinu. Okkur var reglulega hent þaðan út í uppsögnum. Í eitt skiptið sem það gerðist í kringum 2000 keypti ég mér ofn til að brenna leir og byrjaði að föndra, því ég hafði ekkert annað að gera,“ segir Vigdís Helga í viðtali í Austurglugganum í vikunni.

„Ég var alltaf að leira og brenna en sá fljótt að ég gæti ekkert átt allt þetta dót og því eins gott að koma því frá sér. Ég setti því 15 fermetra kofa á lóðina hjá mér uppi í Botnahlíð og opnaði galleríið til að sjá hvort ég gæti komið einhverjum munum frá mér.

Ég var frekar dugleg þannig ég sprengdi utan af mér í skúrnum. Fyrir þremur árum datt mér síðan í hug að kaupa þennan bílskúr og flytja hingað,“ segir Vigdís Helga.

Meðal hennar sérstæðustu verka eru leiruð hús með tröllaandlitum. „Ég var alltaf að gera hús en fólk spurði um tröll. Mér fannst allir vera að gera eins þannig ég fór að búa til tröllsandlit á húsin. Andlitin verða aldrei hin sömu og því eru engin tvö hús eins.“

Lengri útgáfa viðtalsins birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.