Skip to main content
Noelle King, doktorsnemi við Mary Immaculate háskólann á Írlandi, skrifaði í fyrra sérstaka skýrslu um bláa hagkerfið í Múlaþingi. Mynd: GG

Austfirðingar telja sig útundan í ákvarðanatöku

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 08. okt 2025 15:36Uppfært 08. okt 2025 15:38

Rannsakendur á vegum Skálanesseturs í Seyðisfirði hafa undanfarin misseri rannsakað umfang og viðhorf til bláa hagkerfisins á Austfjörðum. Þeir segja íbúa hafa áhyggjur af fækkandi störfum í sjávarútvegi og að þeir séu ekki hafðir með í ráðum þegar stórar ákvarðanir eru teknar en tækifæri séu til að kynna ungt fólk fyrir greininni, meðal annars með samstarfi um nýsköpun.


Fyrstu niðurstöðurnar voru kynntar á málþingi sem Skálanes stóð fyrir á Seyðisfirði í sumar. Að erindinu stóðu þau Patrick Heidkamp, prófessor í umhverfis-, landfræði- og sjávarvísindadeild Háskólans í Suður-Connecticut í Bandaríkjunum (SCSU) og Noelle King, doktorsnemi í landfræði og rannsakandi við Mary Immaculate háskólann á Írlandi fyrrverandi nemi við SCSU. 

Meðal afurða samstarfsins er rannsókn á bláa hagkerfinu á Austurlandi. Með bláa hagkerfinu er í raun átt við hvers konar atvinnustarfsemi sem tengist hafinu. 

„Í sinni víðustu skilgreiningu fellur allt sem tengist hafinu og sjósókn undir bláa hagkerfið en þetta eiga að vera hlutir sem tengjast sjálfbærni á einhvern hátt,“ segir Noelle. 

Hún skoðar meðal annars fiskeldi í doktorsrannsókn sinni sem aftur vakti athygli hennar á Seyðisfirði. „Fiskeldið hefur ýmsa kosti ef rétt er staðið að því. Það getur verið mótvægi við ofveiði en svo hefur það aðra galla þannig það þarf að finna jafnvægið þarna á milli.“

Áhyggjur af ágangi ferðamanna úr skemmtiferðaskipum

Þau hafa undanfarin misseri talað við íbúa víða á Austfjörðum til að komast að því hvaða áskoranir og tækifæri þeir sjái sem falli undir bláa hagkerfið. „Eitt af því sem Austfirðingar nefndu helst er að þeim finnst þeir vera skildir út undan í umræðunni. Stóru ákvarðanirnar eru teknar suður í Reykjavík. Ég man eftir að einn sagði: „Við erum einfaldlega of langt í burtu, það er ekki hugsað um okkur.“

Það var líka komið inn á sprenginguna sem orðið hefur í ferðamennskunni. Sumum íbúum finnast bæirnir of litlir til að taka á móti þessum fjölda. Eða að gestir skipanna komi í land en skilji lítið eftir sig, til dæmis borði frekar í skipinu. Íbúar lýstu til dæmis áhyggjum af mengun frá skemmtiferðaskipum. 

Fólk talaði um hnignun í fiskveiðum. Mörgum finnst tengingin vera að glatast. Að saga veiðanna sem hluti af menningunni sé að hverfa og mikilvægi þeirra að minnka, meðal annars út af eldinu.

Það kom líka inn á að fólk sé búið að sérhæfa sig og þegar það missi vinnuna þá sé erfitt að fá annað starf,“ segir Noelle.

Austfirskur sjávarklasi

Viðmælendur þeirra ræddu einnig tækifæri sem til staðar eru í hafsækinni starfsemi. „Þau geta orðið til með að nýta vöxtinn í ferðaþjónustunni og þekkinguna úr veiðunum til að selja ferðafólki ferðir út á sjó til að veiða. Það kom líka til tals. Eins að þessi afskekktu sjávarpláss hafa ákveðinn sjarma og þar með aðdráttarafl.

Það væri gagnlegt að búa til austfirskan sjávarklasa. Fólk talaði nokkuð um að það vantaði hvata fyrir ungt fólk til að fara í rekstur í sjávarútvegi og sjávarklasi gæti hvatt ungt fólk til að búa hér og vinna að nýsköpun. Í klasa felst að fólk úr ólíkum áttum komi saman,“ segir Noelle.

Þau útskýra að hlutverk þeirra sé ekki að mæla sérstaklega með einni leið umfram aðra, heldur draga fram möguleika og umræðuna. „Við drögum þetta fram til að koma umræðunni af stað. Fólkið sjálft og þeirra leiðtogar þurfa síðan að setjast niður til að ræða málin frekar. En við skynjuðum að margir þeirra sem við töluðum við töldu þetta geta verið góða leið til að tengja yngra fólkið við hafsækna starfsemi,“ segir Patrick.

Að lokum nefna þau að í viðtölum hafi verið minnst á þörfina á auknu samtali og samstarfi á Austurlandi. „Sumir viðmælenda okkar sögðu að jafnvel milli sveitarfélaganna væru ekki nógu mikil samskipti. Þannig það var mælst til þess að Múlaþing og Fjarðabyggð myndu reyna að bæta úr því,“ segir Noelle.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.