Byrjaði á nýársdag að skrifa framhaldið
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 10. feb 2023 10:55 • Uppfært 10. feb 2023 13:54
Unnur Sveinsdóttir á Fáskrúðsfirði sendi fyrir jólin frá sér sitt fyrsta skáldverk, barnabókina Skotti og sáttmálinn. Bókin hlaut ágætar viðtökur og Unnur er þegar byrjuð á næstu bók.
„Mér finnst fantasíur af ýmsum toga skemmtilegt lestrarefni og þar helst höfundar eins og Terry Pratchett og auðvitað bækur Tolkiens. Ég skrifaði bókina með þetta 12 til 15 ára í huga en ákveðnir gagnrýnendur hafa skrifað að bókin henti líka yngra fólki sem lengi sem það er í fylgd með fullorðnum eins og það var orðað.“
Sagan gerist í ævintýraheimi sem heitir Útoría en þar eru tvær sólir á lofti og mannfólkið hefur gert með sér sérstakan sáttmála um að bera virðingu fyrir öllu lífi, bæði manna og dýra. Aðalsöguhetjan er drengurinn Skotti sem er tólf ára og duglegur að lenda í ævintýrum ásamt bestu vinum sínum, Lexí og Loga. Bókin er kaflaskipt því í fyrri hlutanum er Unnur að kynna helstu söguhetjur fyrir lesendum áður en hetjurnar lenda svo í sínu miklu ævintýri í síðari hlutanum.
Unnur segist hafa frá upphafi haft bak eyra að gera þetta að bókarflokki ef efni stæðu til og það er raunin að hún hóf skriftir á framhaldinu strax fyrsta virka dag þessa árs.
„Það kannski ekki margir sem tóku eftir því en á kili Skotta og sáttmálans með mjög litlu letri kemur fram að þetta sé bók númer eitt. Ég byrjaði svo að skrifa framhaldið í upphafi ársins og þó mér finnist ekki mjög auðvelt að skrifa þá ætla ég áfram með þetta verkefni.“
Aðspurð um hvað hún meini með erfiðleikunum segist Unnur hafa breytt Skotta og sáttmálanum mikið frá upphafinu.
„Ætli ég hafi ekki skrifað þá bók fimm til sex sinnum eða svo og hún er töluvert ólík því sem ég kom á blað fyrst, tók miklum breytingum með öðrum orðum. En mér finnst söguhetjurnar skemmtilegar og gaman að koma þeim í forvitnilega aðstæður.“
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.