Fagna því að nauðsynlegustu endurbótum á Kjarvalshvammi er lokið
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 29. ágú 2025 11:32 • Uppfært 29. ágú 2025 11:35
Haldið verður upp á það á morgun að nauðsynlegustu endurbótum er lokið á húsakosti Kjarvalshvamms og svæðið allt hefur fengið talsverða andlitslyftingu. Safnstjóri Minjasafns Austurlands segir Kjarvalsuppsveiflu í samfélaginu.
Kjarval ólst upp hjá skyldfólki á Borgarfirði eystra og rækti tengslin alla sína tíð. Sagan segir að sumarið 1948 hafi hann ætlað að fá far með bát frá Selfljótsbrú að Krosshöfða. Farið brást en Kjarval fékk bílstjóra sinn til að keyra til baka í hvamm sunnan við Ketilsstaði þar sem hann sagðist hafa séð „gott mótíf.“
Svo vel kunni Kjarval við sig í hvamminum að hann bað bóndann á Ketilsstöðum um leyfi til að reisa þar sumarhús. Kjarval reisti sér sumarhús, sem var það eina sem hann eignaðist um ævina því annars bjó hann í leiguhúsnæði. Hann byggði líka bátaskýli sem hýsti Gullmávinn, sem sjá má á sýningu um Kjarval í Sláturhúsinu á Egilsstöðum.
Húsin endurbætt og ný aðstaða við hvamminn
Eftir daga Kjarvals eignaðist sveitarfélagið Hjaltastaðahreppur húsin sem þýðir að þau eru nú í eigu Múlaþings. Minjasafn Austurlands hefur séð um þau frá árinu 1995. Frá árinu 2017 hafa staðið yfir talsverðar endurbætur á húsunum báðum, til dæmis með endurnýjun undirstaðna, klæðningar og annars. Umhverfið í kring hefur einnig fengið andlitslyftingu. Þessu verður fagnað á morgun.
„Það er búið að gera nauðsynlegustu endurbætur á húsunum. Vegagerðin gerði þarna líka nýtt bílastæði og göngustíg frá því í fyrra og áningarstaðarskilti sem fór upp í vikunni. Minjasafnið fékk styrki til að endurgera upplýsingaskilti sem sett voru í sumar,“ segir Björg Björnsdóttir, safnstjóri.
Endurbótum er þó ekki lokið og verður það seint því húsin þurfa stöðugs viðhalds. En næsta og eitt flóknasta verkefnið er gólfið í sumarhúsinu með málningarslettum frá meistaranum. „Það hefur verið mikið rætt um hvernig sé best að fara með það og niðurstaðan er að það þurfi að gera eins og málverk. Þess vegna er ekki hægt að hafa húsið opið því það má ekki ganga um það. Okkar næsta verkefni er að finna forvörð sem getur tekið það verkefni að sér.“
Náttúrumaðurinn Kjarval
Björg segir engar tölur um hversu margt fólk stoppi í hvamminum á ári. Þótt Kjarval fjarlægist í tíma og sé fyrst og fremst þekktur á Íslandi þá á hann alltaf sinn sess. „Ég held það sé smá Kjarvalsuppsveifla í gangi. Það er sýning um ævi hans í Sláturhúsinu og á verkum hans í Skaftfelli á Seyðisfirði. Framundan er síðan sýning í Listasafni Akureyrar á skissum eftir hann sem flestar eru í eigu Minjasafns Austurlands.
Ég held að afstaða hans til lífsins tali til okkar þegar snjalltæki og gerviveruleiki eru að gleypa okkur. Kjarval var þessi náttúrumaður sem vildi bara vera í náttúrunni og lifa með henni. Hann sagði að það að vera í náttúrunni herti hann og í hana sótti hann allan sinn innblástur,“ segir Björg.
Uppskeruhátíð á Eiðum
Dagskráin í Kjarvalshvammi hefst klukkan 15:00 á morgun. Þar verða stutt erindi um endurbæturnar, húsin, gildi staðarins og lesið úr bréfum Kjarvals til bóndans á Ketilsstöðum auk þess sem boðið verður upp á veitingar.
Fleira verður í boði á næstu grösum því um helgina er haldin á Eiðum uppskeruhátíð Sáms – foreldrafélags þinghánna. Í kvöld verður súpuhlaðborð og kvöldvaka í gamla Alþýðuskólanum, á morgun er markaðsdagur þar og á sunndag ganga að Kórreksstaðavígi.