Fjallað um læknisþjónustu í Fjarðabyggð á bæjarráðsfundi
Fjallað var um læknisþjónustu í Fjarðabyggð á fundi bæjarráðs sveitarfélagsins í gær, 5. maí. Komu til fundarins undir þessum lið þau Einar Rafn Haraldsson forstjóri, Stefán Þórarinsson framkvæmdastjóri lækninga og Lilja Aðalsteinsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar, frá Heilbrigðisstofnun Austurlands. Guðríður Þorsteinsdóttir lögfræðingur heilbrigðisráðuneytisins sat einnig fundinn. Að því er fram kemur í fundargerð var farið yfir stöðu mála og má leiða líkum að því að fjallað hafi verið um stöðu yfirlæknis Heilsugæslu Fjarðabyggðar.