Skip to main content

Fjölmennasta blót Austfirðingafélagsins til þessa

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 08. feb 2023 09:12Uppfært 08. feb 2023 09:12

Um helgina var Austfirðingablót haldið hátíðlegt í Valsheimilinu í Reykjavík. Blótið er afrakstur samvinnu átthagafélaga frá 11 byggðarlögum vítt og dreift um Austurland. Á blótinu voru rétt rúmlega 300 manns en aldrei áður hefur svo fjölmennt Austfirðingablót farið fram í Reykjavík.

Eyrún Björk Jóhannsdóttir sem er fædd og uppalin á Héraði er ein þeirra sem stóð fyrir skipulagningu blótsins. Hún segir að flestir hafi verið mjög ánægðir með blótið og að það hafi verið vel heppnað. Austfirðingablótið sé sérstaklega skemmtilegt því hópurinn sé fjölbreyttur og hittist ekki oft.

Sóli Hólm, skemmtikraftur sá um skemmtun á blótinu og Gísli Einarsson var veislustjóri. KK kom fram og hljómsveitin Hist & Her spilaði fyrir dans stanslaust í 3 tíma.

Þetta er í annað skipti sem Austfirðingablót er haldið þar sem svona mörg átthagafélög taka þátt. Árið 2020 var fyrsta Austfirðingablótið fyrir öll átthagafélögin saman, en þá mættu um 240 manns. Það var ekki hægt að halda blót árin 2021 og 2022 vegna Covid-faraldursins.