Fjórir veitingastaðir og bakarí af Austurlandi á topplista Tasting Table
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 05. sep 2025 10:15 • Uppfært 05. sep 2025 11:04
Fjórir veitingastaðir af þeim sextán sem komast á lista bandaríska vefritsins Tasting Table yfir þá bestu á Íslandi. Austfirðingar eiga líka sinn fulltrúa á listanum yfir bestu bakaríin.
Bestu einkunnina fær Móðir Jörð í Vallanesi en höfundurinn, Emily Iris Degn, segir súpu úr rótargrænmeti sem hún fékk þar á sínum tíma sem bakpokaferðalangur „enn vera bestu máltíð sem ég hef fengið.“
Hún hleður Móður Jörð meira lofi og segir staðinn „alltaf verða minn uppáhalds veitingastaður í heiminum.“ Forsendan að góðum mat er lífræn ræktun á staðnum sem Emily Iris segir að verði til þess að „bókstaflega allt á matseðlinum er það besta sem þú hefur nokkurn tíma smakkað.“
Randulfssjóhús, Berunes og Aldan
Listanum er að öðru leyti ekki raðað í sérstaka röð en þrír aðrir staðir á Austurlandi eru á listanum. Randulfssjóhús á Eskifirði fær hrós fyrir að bjóða upp á einstakt umhverfi, hálfgert sjóminjasafn en af matseðlinum mælir Emily sérstaklega með sjávaréttasúpunni.
Berunes býður að hennar mati upp á besta útsýni af nokkrum veitingastað á landinu. Þar er líka ein elsta bændagisting landsins sem í hennar huga „er jafn íslensk og lundinn.“
Síðasti veitingastaðurinn er Hótel Aldan á Seyðisfirði en Emily lýsir þar afar notalegri og afslappaðri stemmingu en líka frábærum mat sem byggir á norrænum matarhefðum og fersku hráefni úr nærumhverfinu, til dæmis fiski úr firðinum.
Best að mæta snemma á Sesam
Emily tók líka saman lista yfir sjö bestu bakarí landsins fyrir Tasting Table. Sesam Brauðhús á Reyðarfirði er þar á meðal. Emily segir að þar ríki jákvæður andi og mælir með því að fara snemma því úrvalið sé þá mest.
Emily er lærður matreiðslumeistari sem hefur sérhæft sig í matarumfjöllun og hefur farið víða um í þeim tilgangi. Hún hefur heimsótt Ísland ítrekað og að eigin sögn drukkið cappuccino á nánast hverju einasta kaffihúsi utan Vestfjarða.
Til að ná utan um veitingastaði landsins hefur hún reynt að heimsækja þá sem eru með góðar einkunnir á miðlum eins og Google og TripAdvisor en einnig fylgst með umræðu meðal matarspekinga og leitað ábendinga frá fólki sem þekkir til, bæði á heimamarkaði og í veitingageiranum.