Flytja sönglög frá lýðveldistímanum

Kammerkór Egilsstaðakirkju flytur á sunnudagskvöld dagskrá þar sem sungin verða íslensk sönglög frá stofnun lýðveldisins. Þeim, sem deila afmælisári með lýðsveldinu, er boðið frítt á tónleikana. Tónleikar verða víðar um fjórðunginn um helgina.

„Þetta er hugmynd sem kom frá kórfélaga, að flytja verk eftir íslensk tónskáld frá lýðveldistímanum. Síðan höfum við lagt töluverða vinnu í að móta dagskrána. Við komum hvert með okkar lög og síðan hefur verið valið úr þeim.

Þetta eru mjög ólík lög. Þarna eru perlur sem allir þekkja og aðrar sem eru minna þekktar. Við könnuðum hvaða lög var verið að syngja um það leyti sem lýðveldið var stofnað, svo sem „Hver á sér fegra föðurland“ en síðan eru þetta lög sem spanna allan lýðveldistímann.

Þess vegna er mjög skemmtilegt að við frumflytjum tvö lög eftir austfirsk tónskáld, Bjarma Hreinsson og Ingibjörgu Ýr Skarphéðinsdóttur,“ segir Ruth Magnúsdóttir úr stjórn kórsins.

Dagskráin hefst í Egilsstaðakirkju klukkan 20:00 á sunnudagskvöld en inn á milli laga verða fluttar hugleiðingar um tíðarandann og tónskáldin. Tveimur hópum er boðið frítt á tónleikana, annars vegar þeim sem fædd eru árið 1944, árið sem lýðveldið er stofnað, hins vegar grunnskólabörnum.

„Okkur finnst gaman að geta gert vel við þessa hópa. Þetta eru til að mynda ekki löng lög þannig þau henta til að kynna þessa tónlist fyrir börnunum.“

Af öðrum viðburðum helgarinnar má nefna að hljómsveitin Gildran er á ferð um fjórðunginn, spilaði á Norðfirði á miðvikudagskvöld og verður í Frystihúsinu á Breiðdalsvík í kvöld. Bassaleikari sveitarinnar er Þórhallur Árnason, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Austurlandi.

Þá er opið hús í Hallormsstaðaskóla milli 13 og 16 á morgun, laugardag. Þar sýna nemendur afrakstur vetrarins í námi sínu í skapandi sjálfbærni. Einn þeirra verður með viðgerðarstöð þar sem hann tekur á móti raftækjum til að laga.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar